Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:29:14 (2097)


[20:29]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svarið að því er varðar flugið. Ég tel það fullnægjandi á þessu stigi. Í svari hans kom fram að tap á innanlandsfluginu gæti numið t.d. 200 millj. án þess að við getum nefnt neinar tölur þar um sem er að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál. Ef þessi breyting á skattalögum verður til þess að tapið verði 50--80 millj. meira á innanlandsflugi Flugleiða, sem ég tel líklegt, að aukist um 50--80 millj., þá hlýtur að vera eðlilegt að spyrja og mikilvægt fyrir hæstv. samgrh. að spyrja: Hvaða afleiðingar mun það hafa í för með sér? Mun flugfélagið sem um er að ræða draga úr sinni þjónustu eða mun þetta e.t.v. verða til þess að þeir muni hætta innanlandsflugi?
    Það verður ekki hjá því komist að spyrja þessara spurninga og ríkisstjórn sem vill láta taka sig alvarlega og virðist hafa svona óskaplega mikla ábyrgðartilfinningu fyrir fjármálum eins og hæstv. samgrh. er að reyna að segja og um leið að gera lítið úr því sem gert hefur verið í fortíðinni --- ég minni samt á ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan sem ég tek undir, um stöðu ríkissjóðs --- sú ríkisstjórn hlýtur að þurfa að fá svar við þessari spurningu. Samgrh. getur ekki varið sig með því að vera alltaf að vitna inn í fortíðina. Honum ber skylda til að gera Alþingi grein fyrir þessu máli áður en það verður samþykkt hér. Og hann þarf ekki aðeins að kynna sér þetta með flóabátana, hann verður að gefa svör um það hvaða afleiðingar þetta muni hafa á innanlandsflugið.