Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:33:31 (2099)


[20:33]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er náttúrlega ekki frambærilegt fyrir hæstv. samgrh. að láta í það skína að vegna þess að ríkissjóður hafi einhverja bagga frá fortíðinni þá verði þetta bara að fara svona. Ég veit ekki betur en að hæstv. samgrh. hafi lagt það til og skuldbundið ríkissjóð um eins og 3,5 milljarða fram í framtíðina að því er varðar Vegasjóð. Ég er út af fyrir sig ekki að gagnrýna hann fyrir það, en ég man ekki betur en að þingmenn Sjálfstfl. gengju hér fram að því er varðaði kaupin á Herjólfi og fleira. Ég varð ekki var við andstöðuna hjá þeim í því máli. Og þeir sem voru að reyna að spyrja spurninga í þeim málum voru ekki hátt skrifaðir á Alþingi. Ég man ekki eftir andstöðu hv. þm. í því sambandi. Ég man ekki betur en hann hafi sótt mjög fast ýmsar samgöngubætur í sínu kjördæmi í gegnum tíðina og gert lítið úr hæstv. fyrrv. samgrh. í því sambandi. Þannig að ég held að það væri hæstv. samgrh. mest sæmandi að hætta þessu tali og snúa sér að þeim verkefnum sem blasa við honum og sinna þeim og líta til framtíðarinnar en líta ekki alltaf aftur fyrir sig og láta svo allt saman fara í tóma vitleysu. Auðvitað verður hæstv. samgrh. að svara fyrir þær ákvarðanir sem hann hefur forustu fyrir --- hann hefur forustu fyrir því að leggja sérstakan skatt á ferðaþjónustuna sem mun sennilega draga mjög úr henni, hann hefur forustu um það að leggja sérstakan skatt á dreifbýlið, sérstakan skatt á flugið --- hæstv. ráðherra á að segja til um það hér á Alþingi hverjar eru afleiðingarnar en vera ekki alltaf að líta til baka. Hann má það mín vegna en ég óska þess helst að hann sinni sínu verkefni og sinni því sem hann á hér að fjalla um.