Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:35:27 (2100)

[20:35]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég segi eins og hv. þm. að hann má svo sem mín vegna skorast undan því að bera ábyrgð á því sem hann gerði sem ráðherra í síðustu ríkisstjórn. Það liggur alveg ljóst fyrir að það skip og sá samningur sem var undirskrifaður tveim eða þrem dögum fyrir síðustu kosningar vegna Herjólfs var ekki á ábyrgð Alþingis. Það lágu fyrir ákveðnar heimildir í lánsfjárlögum um það hversu mikla fjármuni væri heimilt að veita til kaupa á nýjum Herjólfi. Það var hins vegar ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu á fjárlögum til stofnkostnaðar vegna þess skips og með samningnum farið langt, langt fram yfir heimildir Alþingis eins og hv. þm. á að vera kunnugt vegna þess að hann sat sjálfur í fjárhags- og viðskiptanefnd á þeim tíma þegar viðbótarheimilda var aflað. Það þýðir ekki neitt að koma upp í ræðustól, vera að hvessa sig og látast vera saklaus eins og englabarn í þessum efnum. (Gripið fram í.) Ég skal tala um það sem hv. þm. talaði um og kannski í sömu röð, fyrr má nú vera ef maður má ekki tala um það í sömu röð og þingmaðurinn. (Gripið fram í.) Ég sé að fyrrv. samgrh. er líka orðinn svolítið órólegur og má vera að það sé skiljanlegt. ( SJS: Nei, ekki mjög.) Mér sýnist það á honum að hann sé farinn að roðna í vanganum. (Gripið fram í.)
    Um ferðamálin vil ég svo segja að ef við horfum til þess hvaða breyting hefur orðið hér í þjóðfélaginu þá efast ég um að það sé rétt að ferðakostnaður fyrir erlenda ferðamenn hafi hækkað hingað til landsins. Það er búið að lækka verulega álögur á atvinnurekstrinum með margvíslegum hætti. Það er alveg ljóst að þeir erfiðleikar sem t.d. hótel úti á landsbyggðinni og ýmsir eiga nú í er ekki vegna þess virðisaukaskatts sem á að leggjast á þessa starfsemi á næsta ári, svo mikið er a.m.k. víst.