Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:18:38 (2113)


[21:18]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. sagði í sinni ræðu áðan þá er það mikið atriði fyrir okkur Íslendinga að okkur takist að reyna að lækka kostnaðinn við það að erlendir ferðamenn komi hingað til landsins. Til allrar hamingju hefur með margvíslegum hætti tekist að koma til móts við ferðaþjónustuna. Þannig að hafa ýmsir skattar verið lækkaðir á fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Breytingin í sambandi við virðisaukaskattinn hefur það m.a. í för með sér í sambandi við hótelbyggingar að stofnkostnaðurinn verður verulega lægri, 20% lægri og munar um minna og má segja að undir sumum kringumstæðum geti það ráðið úrslitum um það hvort út í slíkan rekstur verði farið.
    Ég vil líka minna á að þær gengisfellingar sem óhjákvæmilegt var að grípa til, í fyrra og á þessu ári, hafa ekki farið út í verðlagið eins og löngum var áður, þannig að þau kjör eða þeir kostir sem verið er að bjóða upp á eru sambærilegir og hlutfallslega betri en áður hafði verið.