Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:25:43 (2115)


[21:25]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það getur vel verið að hæstv. fjmrh. finnist það ekki skipta neinu máli þó að 2 milljarðar, hvort sem þeir eru í skuldabréfsformi eða einhverju öðru formi, komi hvergi fram. En það vill svo til að ýmsum finnst að slíkar upphæðir eigi að sjást og þótt lægri séu. Ég veit ekki betur en sú stefna hafi verið uppi höfð upp á síðkastið að bókfæra allar skuldbindingar ríkissjóðs og auðvitað á að færa þessar upphæðir inn og út alveg á nákvæmlega sama hátt og þessi álagning, þó til bráðabirgða hafi verið, til að bæta sveitarfélögunum aðstöðugjaldsmissinn, var í formi tekjuskatts og þá á hún auðvitað að koma sem tekjur vegna álagðs tekjuskatts og síðan þá út sem framlag til sveitarfélaga. Svo einfalt er það. Það getur vel verið að hæstv. fjmrh. telji þreytandi athugasemdir mínar um bókhald, en ég sé ekki hvernig á að stjórna ríkisfjármálum ef bókhaldið er ekki í lagi. Ég heyrði ekki betur í útvarpinu, ég held það hafi verið í gærmorgun, en að nú sé Landsbankinn um það bil að fá greiðslu, 1 milljarð, og lái mér hver sem vill þó ég vilji sá það einhvers staðar í ríkisreikningi og annaðhvort í lánsfjárlögum eða fjárlögum.
    Annað held ég að það hafi ekki verið en hæstv. fjmrh. hefur a.m.k. lofað því að sú nefnd sem hefur setið núna mánuðum saman við að reyna að koma einhverju samkomulagi á um bókfærslu íslenska ríkisins og hæstv. ráðherra hefur orðað það svo að bráðum rjúki hinn hvíti reykur, ég ætla að vona að það gerist sem allra fyrsta svo það sé vinnandi í hv. fjárln.