Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:31:20 (2118)


[21:31]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. gat um það í sinni ræðu að sértekjur hefðu lækkað, taldi það nú hæstv. ríkisstjórn til gildis, og ég tel það víst, þó hann hafi kannski ekki sagt það, það er rétt. En ég held að menn ættu að vara sig, og hæstv. ráðherra líka, á að draga of algildar ályktanir þó að þær tölur standi einhvers staðar á blaði. Sértekjur geta nefnilega verið áætlaðar svo háar að fólk hafi ekki efni á því að kaupa þjónustuna. Og ég minnist þess að í skýrslu sem fjárln. fékk frá landlækni, velti hann þessu fyrir sér, hvort einstakir þættir sértekna á sjúkrahúsum hefðu minnkað vegna þess að fólk hefur ekki efni á því að kaupa þjónustuna. Þar er um sérfræðiþjónustu að ræða. Ég held að það væri verðugt verkefni að skoða þennan þátt mjög rækilega, því þetta er mjög alvarlegt mál, ef rétt er.