Lánsfjárlög 1993

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:41:16 (2124)

[21:41]
     Frsm. fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti fjárln. um frv. til laga um breytingu á lánsfjárlögum fyrir árið 1993 o.fl., nr. 3/1993.
    Nefndin hefur haft frumvarpið til meðferðar en það er flutt vegna þess að heildarlánsfjárþörf ríkisins á árinu er meiri en gert var ráð fyrir við upphaflega afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1993.
    Á fund nefndarinnar komu til viðræðna um frumvarpið Jón Birgir Jónsson, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, og Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneyti. Auk þess var leitað álits efnahags- og viðskiptanefndar í samræmi við ákvæði í 25. gr. þingskapa. Það álit er birt sem fylgiskjal með nefndarálitinu.
    Gildandi heimildir í lánsfjárlögum til erlendrar lántöku á yfirstandandi ári eru fullnýttar. Lánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu hefur vaxið og óhjákvæmilegt er að veita frekari heimildir. Vakin skal athygli á að við uppsetningu lánsfjárlaga fyrir árið 1994 er ekki gert ráð fyrir að sundurliða heimildir í erlendar og innlendar lántökur.
    Með vísan til þess sem að framan segir mælir nefndin með samþykkt frumvarpsins.
    Guðrún Helgadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Undir álitið rita Sigbjörn Gunnarsson, Sturla Böðvarsson, Drífa Hjartardóttir, Árni M. Mathiesen, Gunnlaugur Stefánsson og Einar Guðfinnsson. Með fyrirvara rita undir álitið Jón Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.