Lánsfjárlög 1993

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:50:55 (2127)


[21:50]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þar sem ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara þá vil ég gera hér grein fyrir því og jafnframt svara að nokkru leyti einnig ábendingum eða athugasemdum hv. 6. þm. Norðurl. e.
    Ég er sammála síðasta ræðumanni í því að ég tel ekki neitt athugavert við það þó að embættismenn séu kallaðir fyrir tvær nefndir og ég fagna því raunar að það skuli hafa verið tekin upp sú stefna, eða ég vona að það sé stefna, að fjárln. afgreiði frá sér lánsfjárlög jafnhliða því að afgreiða fjárlög. Ég hef áður lýst þeirri skoðun að ég tel að lánsfjárlögin séu svo tengd fjárlögum að þau þurfi að afgreiðast samhliða. Þessi lánsfjárlög eru hins vegar ekki nema viðbót við yfirstandandi fjárlög eða lánsfjárlög sem voru rædd ítarlega á síðasta þingi. Þá skilaði minni hluti efh.- og viðskn., sem þá afgreiddi málið frá sér inn í þingið, séráliti, þar sem þeir lýstu því að þeir treystu sér ekki til að mæla með því frv. á því stigi sem það var þá afgreitt til 2. umr., vegna þess að það væri mjög erfitt að átta sig á því hvort þær stærðir sem þar væri um að ræða gætu staðist. Það hefur auðvitað komið í ljós með þessu frv. til breytinga á lánsfjárlögum að þær áhyggjur voru ekki ástæðulausar.
    Þegar fjárln. ræddi þetta frv. þá kom það í ljós, eins og hér er í 1. gr., að heimildir lánsfjárlaga duga of skammt og þarf að auka þær sem nemur í raun og veru þeim halla á ríkissjóði sem hefur komið í ljós á þessu ári, þ.e. það þarf að auka þær um nær 5 milljarða kr., sem er þó ekki allur sá halli sem mun verða á yfirstandandi ári ef að líkum lætur.
    Það kom einnig fram þegar verið var að ræða þetta að nauðsynlegt væri að afla þessara heimilda og jafnframt að það mætti taka þær hvort heldur væri innan lands eða erlendis. Það var einmitt í tengslum við vaxtamálin eða vaxtalækkunina.
    Þó ég, eins og ég segi, hafi skrifað undir nál. þá verð ég að lýsa því yfir að ég tek ekki ábyrgð á þeirri stefnu sem fram kemur í því að hér hefur ekki verið hægt að leggja fram raunhæf lánsfjárlög á síðasta ári. Þau standast engan veginn, ekkert frekar en fjárlögin. Ég er mjög ósátt við það að þannig sé staðið að afgreiðslu fjárlaga að hallinn hafi næstum því alltaf tilhneigingu til þess að tvöfaldast, sem hefur a.m.k. gerst núna undanfarin tvö, þrjú fjárlagaár.
    Síðan er í b-lið 2. gr. tekið fram að Spölur fái allt að 50 millj. kr. Það kom fram hjá fulltrúa Kvennalistans í efh.- og viðskn., hv. þm. Guðrúnu J. Halldórsdóttur, að hún skrifaði undir það með fyrirvara vegna þessarar greinar, þar sem hún segir, með leyfi forseta:
    ,,Ég rita undir álitið með fyrirvara og lýtur hann að því að Spölur hf. skyldi, að því er virðist í samráði við ríkisstjórnina, telja sér heimilt að eyða fyrir fram stórum hluta þess fjár sem nú er sótt um heimild til að taka að láni erlendis.``
    Þannig að það virtist hafa komið fram á fundum efh.- og viðskn. að Spölur væri búinn að eyða þessum 50 millj. Við fengum m.a. Jón Birgi Jónsson, ráðuneytisstjóra í samgrn., og Magnús Pétursson til að upplýsa þetta mál og samkvæmt því sem þeir sögðu okkur þá var ekki búið að eyða þessu. Það væri því æskilegt að hæstv. fjmrh. heyrði mál mitt og svaraði því hvort heldur er rétt sem efh.- og viðskn. hefur skilið málið eða fjárln., að það sé búið að ráðstafa þessum 50 millj. kr. til Spalar.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þetta mál en hef hér með lýst þeim fyrirvara sem ég hef við þetta frv., en viðurkenni að sjálfsögðu þá nauðsyn sem er á því, vegna stöðu ríkissjóðs, að auka við þær heimildir sem þurfa að vera til staðar til að taka lán vegna ástandsins í ríkisfjármálum.