Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 15:22:36 (2141)


[15:22]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Við erum sammála, virðulegi forseti, um það að hér er um heimildir að ræða og niðurstaðan getur að sjálfsögðu breyst þar til endanlegt fjáraukalagafrv. verður samþykkt en það mun ekki koma fyrr en eftir áramót.
    Varðandi fjárfestingar og viðhald skal það enn staðfest sem hér hefur komið fram. Það kann einnig að vera heppilegt jafnvel að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlaði að beita sér fyrir á yfirstandandi ári færist yfir á næsta ár því að nú er ljósar en áður að næsta ár verður í atvinnulegu tilliti jafnvel erfiðara heldur en yfirstandandi ár og árið í fyrra. Og ég vona að það komi þá að sama gagni og meira gagni þegar erfiðleikarnir verða meiri til sjós eins og spáð er á næsta ári.
    Þetta vildi ég að kæmi fram og varðandi viðræður á milli aðila vinnumarkaðarins annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar þá er það rétt að það gætti nokkurs misskilnings aðallega vegna þess að fjárfestingarliðurinn í fjárlögum á hverjum tíma er ekki einungis til fjárfestingar eða framkvæmda á yfirstandandi ári heldur einnig til skuldagreiðslna vegna gamlla fjárfestinga, til að mynda kaupa eða yfirfærslna á eignum þegar um var að ræða samninga á milli sveitarfélaga og ríkisins og það auðvitað blekkti dálítið að liðurinn á greiðslugrunni og þar eru færðar inn upphæðir til greiðslu á gömlum skuldbindingum þótt engar beinar framkvæmdir lægju að baki á yfirstandandi ári. Þetta veit ég að hv. þm. þekkir mjög rækilega bæði úr sínu fyrra starfi sem ráðherra og einnig sem gamalreyndur fjárlaganefndar- og fjárveitinganefndarmaður.