Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 16:54:23 (2149)


[16:54]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði óskað eftir því fyrr í dag að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur þennan þátt umræðunnar og ítreka þá ósk mína til hæstv. forsrh. Ég tel einnig óhjákvæmilegt að hæstv. viðskrh. sé hér við þessa umræðu. ( GHelg: Hann er ekki á landinu.) Mér er tjáð að hann sé ekki á landinu en hann hlýtur að hafa einhvern staðgengil. Það er auðvitað mjög vont ef enginn ráðherra Alþfl. treystir sér til þess að vera viðstaddur þessa umræðu nema hæstv. heilbrrh. sem fyrst og fremst er þá hér til þess að passa sitt bú. ( Fjmrh.: Og fjmrh.) Fjmrh. er nú ekki ráðherra Alþfl. (Gripið fram í.) En það má vel vera að svo náið sé samstarfið orðið. En ég ítreka ósk mína um það að hæstv. forsrh. komi hér til umræðunnar, enda var hún sett fram fyrir hádegi að hann yrði viðstaddur þennan þáttinn þannig að ærinn tími hefur gefist til þess að gera ráðstafanir í þeim efnum og enn fremur sá ráðherra Alþfl. sem ber ábyrgð á viðskrn.
    ( Forseti (KE) : Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til að láta hæstv. forsrh. vita að hans sé óskað í þingsalinn. Um aðra ráðherra veit forseti ekki nema hvað fram hefur komið að hæstv. viðskrh. sé erlendis.)
    Ósk mín er þá að sá ráðherra Alþfl. sem fer með viðskiptamál verði kallaður til umræðunnar, sá sem gegnir fyrir hæstv. viðskrh.
    ( Forseti (KE) : Forseti skal gera ráðstafanir til að láta þann ráðherra vita.)
    Það þarf, virðulegi forseti, ekki að rekja það hér í þessum stól að samhengi ríkisfjármála við aðra þætti efnahagsmála er ærið. Við erum hér að fjalla um frv. sem felur það í sér að staðfesta gífurlegan halla á ríkissjóði á þessu ári. Hvað hann verður mikill á eftir að koma í ljós eins og hæstv. fjmrh. benti á fyrr í þessari umræðu. En hæstv. fjmrh. er væntanlega sammála okkur um það að hvað sem líður hinni endanlegu tölu, þá er ljóst að hallinn verður gífurlegur.
    Þá er það einnig ljóst að ríkisstjórnin hefur gefist upp við það að minnka hallann á fjárlögum næsta árs frá því fjárlagafrv. sem lagt var fram í byrjun þings þannig að allt hið mikla starf sem hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh. hafa lagt í það verk virðist ekki ætla að skila neinu. Við erum því að fást við dæmi sem felur það greinilega í sér að á tveimur síðustu heilu árum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, 1993 og 1994, verður hallinn á ríkissjóði einhvers staðar á bilinu 20--30 milljarðar. Það hefðu þótt mikil tíðindi í upphafi þessa stjórnarsamstarfs þegar hér voru fluttar á Alþingi ræður hvað eftir annað af hæstv. ráðherrum og skrifaður stjórnarsáttmáli sem fól það í sér að á fyrstu tveimur árunum sem ríkisstjórnin starfaði ætti að ná ríkissjóðshallanum niður í núll, að þegar upp væri staðið væri árangurinn sá að á síðustu tveimur heilu árunum hjá ríkisstjórninni yrði hallinn aldrei undir 20 milljörðum og gæti verið á bilinu 20--30 milljarðar.
    Hæstv. utanrrh. sagði hér í stefnuumræðunni í haust að þingið gæti varla mætt á Þingvöll á 50 ára afmæli lýðveldisins með þann halla sem við blasti á ríkissjóði í ár og á næsta ári. Er hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin öll hætt við að mæta á Þingvöll á 50 ára afmæli lýðveldisins?
    Er það virkilega þannig að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi einfaldlega gefist upp í þessu verkefni? Það er fyrsta spurning mín til hæstv. forsrh. Á að afgreiða það frv. til fjáraukalaga sem hér er til umræðu og fjárlögin á þeim grundvelli sem liggur fyrir hér við 2. umr. og boðað hefur verið hjá hæstv. fjmrh. varðandi afgreiðslu fjárlaga næsta árs? Má ég minna hæstv. forsrh. á það hve oft hann hefur síðan hann tók við haldið fram þeirri kenningu að ekki sé hægt að ná vöxtunum niður á Íslandi varanlega nema með hallalausum ríkisbúskap. Er hæstv. forsrh. búinn að átta sig á því að sú kenning sé röng? Og er þá ekki rétt að hann komi hér upp og segi þinginu og þjóðinni það að sú kenning sé röng? Eða er sú vaxtalækkun sem ríkisstjórnin náði hér fyrir nokkrum vikum síðan aðeins skammvinn aðgerð? Það getur ekki hvort

tveggja gengið upp, hæstv. forsrh., að halda því fram að varanleg vaxtalækkun náist ekki á Íslandi nema með hallalausum ríkisbúskap og að ganga þannig frá ríkisfjármálunum að yfir 20 milljarða halli blasi við á þessum tveimur árum og ætla sér að viðhalda vaxtalækkuninni.
    Ég vil þess vegna í upphafi þessarar umræðu spyrja bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hvert sé samhengið í afgreiðslu þess frv. sem hér er til umræðu og fjárlaga næsta árs við vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar. Ef það er eitthvað eitt sem ríkisstjórnin treystir á til þess að koma hjólum hagkerfisins í gang á nýjan leik og draga úr atvinnuleysinu þá er það vaxtalækkunin og þess vegna er nauðsynlegt að fá fram hér í þessari umræðu alveg skýr rök fyrir því hver sé grunnur hennar.
    Ég hef sagt það á öðrum vettvangi og get endurtekið það hér að hæstv. forsrh. og reyndar einnig hæstv. fjmrh., að ógleymdum hæstv. utanrrh., hafa haldið fram mörgum röngum kenningum um þessi efnahagsmál síðan þeir tóku við fyrir tveimur árum síðan. Ein af þessum kenningum hefur verið sú að það væri ekki hægt að ná vöxtunum niður nema ná hallanum á ríkissjóði út úr myndinni. Nú er ríkisstjórnin hins vegar að hæla sér af því að vera samtímis með met í hallarekstri og að ná fram vaxtalækkun. Ég held þess vegna að hæstv. ríkisstjórn ætti að átta sig á því að sú kenning, sem hún hefur verið með lengi og hefur verið flutt hér í þessum ræðustól af flestum ráðherrum á sl. tveimur árum, að það væri ekki hægt að ná vöxtunum niður nema ríkissjóðshallinn minnkaði, hún stenst einfaldlega ekki því að raunveruleikinn blasir nú við að það hefur tekist að ná vöxtunum niður --- nema það sé bara skammvinn aðgerð og mun ég koma að því hér eftir stutta stund.
    Hæstv. fjmrh. hefur síðan hvað eftir annað haldið því fram að forsendan fyrir því að hann geti náð vöxtunum á ríkisverðbréfum niður sé að markaðurinn gangi á undan. Hvað ætli það séu margar ræðurnar sem hæstv. fjmrh. hefur haldið um það? Hver er niðurstaðan nú? Hæstv. fjmrh. fór á undan og þess vegna spyr ég hér: Hefur markaðurinn elt hann eða ekki? Var hæstv. fjmrh. alltaf með ranga kenningu eða er það einfaldlega þannig að vaxtalækkunin núna sé skammvinn vegna þess að markaðurinn elti ekki hæstv. fjmrh. eins og ráða má af frétt Morgunblaðsins í dag og ummælum seðlabankastjóra Jóns Sigurðssonar? Og það er satt að segja mjög merkilegt að hæstv. ráðherrar skuli ekki strax í dag hafa tjáð sig um ummæli Jóns Sigurðssonar seðlabankastjóra í Morgunblaðinu í morgun því að þar er seðlabankastjóri, fyrrv. hæstv. viðskrh., í raun og veru að segja það að vaxtalækkun ríkisstjórnarinnar muni ekki ganga upp. Kem ég nánar að því síðar.
    Hæstv. forsrh. sem hefur haldið fram mörgu röngu í þessum málum á undanförnum missirum kom hér enn á ný upp í dag með enn eina staðleysuna og þess vegna vaknar sú spurning: Er það virkilega þannig að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson viti ekki hvað er rétt og breyti þess vegna samkvæmt því eða er hann vísvitandi að fara með falskar upplýsingar í trausti þess að þeir sem á hann hlýða viti ekki betur? Og hann endurtók hér í ræðustólnum það sem hann flutti þjóðinni á Rás 2 í gær, fullyrðinguna um það að spariskírteini ríkissjóðs hefðu ekki selst í ársbyrjun 1991 þegar tilraun var gerð til þess að bjóða þau á í kringum 6% vöxtum en hefðu síðan farið að seljast eftir að ríkisstjórnin hækkaði vextina. Hverjar eru tölurnar, hæstv. forsrh.? Tölurnar eru þessar:
    Í október og desember 1990, þrjá síðustu mánuði ársins 1990, seldust spariskírteini ríkissjóðs fyrir 2 milljarða 152 millj. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins 1991, janúar, febrúar, mars og apríl seldust spariskírteini ríkissjóðs fyrir tæpar 1.400 millj. eða 1.376 millj. En hver var salan næstu fjóra mánuði á eftir, eftir að ríkisstjórnin hafði hækkað með handafli vextina á spariskírteinum ríkissjóðs? Hefði hún ekki þá samkvæmt lögmálum markaðarins og kenningum hæstv. forsrh. átt að rjúka upp og verða meiri? Jú, auðvitað. En það var bara ekki raunveruleikinn. Markaðurinn keypti minna af spariskírteinum á þeim fjórum mánuðum þegar ríkisstjórnin fór að bjóða þeim á háu vöxtunum heldur en selt var á lágu vöxtunum á fyrstu fjórum mánuðum ársins, eða aðeins um u.þ.b. 900 millj. samtals í maí, júní, júlí og ágúst 1991. Með öðrum orðum var meiri sala á spariskírteinum ríkissjóðs á lágu vöxtunum fyrstu fjóra mánuði ársins 1991 heldur en fyrstu fjóra mánuðina þegar þau voru boðin á háu vöxtunum. Þess vegna er það einföld staðreynd að hæstv. forsrh. fór hér með rangt mál því að ef tekinn er veturinn frá október til apríl 1990--1991 er samanlögð sala spariskírteina um 3,5 milljarðar. Og það er allnokkur sala á spariskírteinum ríkissjóðs. Ég er ekki að segja þetta í einhverjum metingi við núv. hæstv. fjmrh. um að það hafi selst meira af spariskírteinum ríkissjóðs á þeim mánuðum þar sem við stjórnuðum í fjmrn. og á þeim mánuðum samsvarandi þegar hann tók við í fjmrn. Mér dettur ekki í hug að fara í nein slíkan meting. Ég er einfaldlega að rekja þetta hér vegna þess að hæstv. forsrh. hefur farið með rangt mál og ég held að hann fari ekki vísvitandi með rangt mál. Ég held bara að hann sé búinn að búa til einhverja veröld í kollinum á sér sem hann gengur út frá í sínum málflutningi og aðgerðum sem einfaldlega stenst ekki og þess vegna sé kannski ósköp eðlilegt að prógrammið gangi ekki upp frekar en afsökunin um ríkissjóðshallann og að markaðurinn yrði að ganga á undan gekk heldur ekki upp þegar svo veruleikinn er skoðaður núna, þegar ríkisstjórnin segist hafa náð að lækka vextina með því að ganga sjálf á undan og ríkissjóðshallinn hefur aldrei verið meiri.
    En hvað kemur fram í dag, virðulegi forseti? Í dag birtist sú frétt á baksíðu Morgunblaðsins að raunávöxtun óverðtryggðra lána í íslenska bankakerfinu sé 12--16%, --- 12--16% raunvextir í íslenska bankakerfinu. Með öðrum orðum: Raunvextir íslenska bankakerfisins eru enn þá eins og Alpafjöllin í samanburði við það sem er í viðskiptabönkum annars staðar í Vestur-Evrópu. Munurinn á milli vaxtastigsins í íslenska hagkerfinu og þess sem er í nágrannalöndum okkar er enn þá himinhár þannig að við búum hér, atvinnulífið og einstaklingar á Íslandi, við vaxtahæðir sem eru fjallháar samanborið við þær sléttur sem tíðkast í viðskiptalöndum okkar. Og varð breyting á vaxtabreytingadeginum til þess að lækka vextina í gær? Nei. Það gerðist nefnilega ekki. Það var stopp. Bankarnir voru hættir. Það gerðist ekki neitt. Og þá kemur seðlabankastjórinn nýráðni, og senn fráfarandi, og kveður upp sinn salómonsdóm, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þegar á þetta allt er litið er náttúrlega alveg ljóst að það skortir verulega á að nafnvextir útlána í bankakerfinu séu í samræmi við markaðskjör.``
    Ég ætla að endurtaka þessa einstæðu yfirlýsingu formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, Jóns Sigurðssonar seðlabankastjóra: ,,Þegar á þetta allt er litið er náttúrlega alveg ljóst að það skortir verulega á að nafnvextir útlána í bankakerfinu séu í samræmi við markaðskjör.``
    Þess vegna bað ég um staðgengil viðskrh. en í fjarveru hans spyr ég hæstv. forsrh., sem einnig með sjálfstæðum hætti verður auðvitað að tjá sig um þessa yfirlýsingu seðlabankastjórans vegna þess að hæstv. forsrh. er yfirmaður efnahagsmála í Stjórnarráðinu: Ef bankakerfið á Íslandi starfar ekki í samræmi við þá markaðsvexti sem seðlabankastjórinn hefur tilkynnt að séu í landinu, hvað ætlar ríkisstjórnin þá að gera? Ef bankakerfið starfar ekki í samræmi við markaðskjörin, er þá ekki allt unnið fyrir gýg? Er þá ekki allt í plati? Gengur þessi leiksýning þá upp lengur þegar seðlabankastjórinn hefur komið og sagt: Tjaldið er fallið. Bankarnir haga sér ekki í samræmi við markaðskjörin?
    Auðvitað er það gott og blessað að bjóða ríkisvíxlana og spariskírteini ríkissjóðs á lægri vöxtum En, hæstv. forsrh. og virðulegur fjmrh., það dugar atvinnulífinu nánast ekki neitt og einstaklingum í landinu nánast ekki neitt ef bankakerfið gengur ekki á eftir, ef bankakerfið heldur áfram að vera í Alpafjöllum vaxtahæðanna og starfar að dómi seðlabankastjórans ekki í samræmi við vaxtakjör, þá skiptir það í sjálfu sér engu máli fyrir efnahagslífið í landinu og einstaklingana á hvaða kjörum lífeyrissjóðirnir og bankakerfið kaupa spariskírteinin og ríkisvíxlana sem fjmrn. er með. Þá er það bara einhver svona sérheimur út af fyrir sig milli Arnarhvols og Austurstrætis og kemur atvinnulífinu í landinu ekkert við.
    Morgunblaðið greinir frá því í dag að raunvextir bankanna á óverðtryggðum lánum séu enn þá 12--16% og Jón Sigurðsson seðlabankastjóri lýsir því yfir að það sé ekkert hægt að gera í því. Og hann heldur áfram. Hann lýsir því yfir að vextir bankanna væru mjög háir og búist hefði verið við því að þeim yrði breytt um mánaðamótin. Seðlabankinn bjóst við því að viðskiptabankarnir mundu lækka vextina núna um mánaðamótin, en þeir bara gerðu það ekki, bara alls ekki, ekki um eitt prósentubrot. Og hvað ætlar ríkisstjórnin og Seðlabankinn þá að gera? Halda áfram að bíða? Ætlar Alþfl. að halda áfram að ferðast um landið og halda fundina? Hvar ætlar hæstv. heilbrrh. að vera næst á vaxtafundi? Á ekki hæstv. heilbrrh. eftir að mæta á einhverjum vaxtafundi eða eru allir vaxtafundir Alþfl. búnir, sirkusinn sem fór hér um landið og tilkynnti fólkinu að nú væru lækkaðir vextirnir hjá atvinnufyrirtækjunum í sjávarútvegi og iðnaði og hjá þeim væru a byggja og hjá einstaklingunum í landinu? Búist var við því að þeir yrðu lækkaðir um mánaðamótin, segir seðlabankastjóri Jón Sigurðsson. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvað gerðist? Hvað gerðist fyrst Seðlabankinn og ríkisstjórnin bjuggust við því að vextirnir yrðu lækkaðir í gær en þeir voru ekki lækkaðir? Og við viljum fá svör hér, hæstv. forsrh., í þessum sal vegna þess að gagnvart þjóðinni í gær tilkynnti hæstv. forsrh. að þetta væri eðalmerki stjórnarstefnunnar og árangursins. En bara á sama tíma og hann var að fytja þjóðinni þann boðskap, þá voru Íslandsbanki, Landsbanki, Búnaðarbanki og sparisjóðirnir allir að ákveða að gera ekki neitt. Með öðrum orðum, hæstv. forsrh., þeir voru að hafa orð forsrh. að háði og spotti.
    En seðlabankastjórinn heldur áfram. Seðlabankastjórinn segir að Seðlabankinn hafi með ýmsum aðgerðum beitt sér fyrir bættum starfsskilyrðum bankanna. Þannig hafi lausafjárkvöð og bindiskylda verið lækkuð og vaxtaskiptasamningar verið gerðir við bankana sem geri það að verkum að verðtryggingaráhættan væri tekin frá þeim meðan sá samningur gilti vegna þess að sérstaklega væri ástæða til að lækka vextina. En það bara gerðist ekki. Það er búið að gera nýja samninginn sem undirritaður var við langa borðið í Seðlabankanum þar sem 13 bankastjórar röðuðu sér að langa borðinu og undirrituðu samninginn. En svo gerist bara ekki neitt. Ætlar ríkisstjórn Íslands að láta þetta mikla vaxtalækkunarleikrit enda í því að raunávöxtun óverðtryggðra lána í bankakerfinu sé 12--16%? Bankakerfið á Íslandi er búið að tilkynna að þar verði hætt. 12--16% raunávöxtun óverðtryggðra lána. Halda menn að eitthvað atvinnulíf standist það? Halda menn að það verði hægt að byggja upp nýja sókn í íslensku atvinnulífi með 12--16% raunvexti í bankakerfinu? Auðvitað ekki. Halda menn að þeim þúsundum sem verða hér atvinnulausir í vetur sé einhver gleði í því að fá slíkar tilkynningar? Auðvitað ekki. Og halda menn að Vestfirðingunum sem eru að horfa framan í það að fyrirtækjunum verði loka sé einhver gleði í því? Auðvitað ekki.
    Hæstv. forsrh. kom í gær og sagði: Það er þorskurinn. Ef skoðaður er munurinn á Íslandi og þessu fína hagkerfi úti í heimi á Vesturlöndum þar sem ástandið er miklu verra en hér og reynt að útskýra í hverju munurinn felst, sagði hæstv. forsrh. í gær, þá er munurinn einfaldlega fólginn í því að hjá okkur er það bara þorskurinn sem hefur minnkað. Er það kannski, hæstv. forsrh., líka þorskurinn sem ber ábyrgð á 12--16% raunávöxtun óverðtryggðra lána í bankakerfinu? Er það kannski líka þorskurinn sem ber ábyrgð á því að bankarnir lækkuðu ekki vextina í gær? Hvað á þessi vitleysa að halda lengi áfram að þorskurinn sé gerður að einum allsherjarsökudólgi fyrir mistök og lélega stjórn þessarar ríkisstjórnar á efnahagsmálum? Eða hefur það kannski farið fram hjá hæstv. forsrh. að árið í ár er nú þegar orðið metár í veiðum á Íslandi? Það er ekki hægt að finna eitt einasta ár í sögu lýðveldisins þar sem Íslendingar hafa veitt

meiri sjávarafla. Það er nú allur aflasamdrátturinn. Og það er lýðveldismet í veiðum það sem af er þessu ári. Hefur hæstv. forsrh. ekki áttað sig á því? Auðvitað er það alveg rétt að þorskurinn hefur minnkað, en það hefur bara aukist í öðrum stofnum sem eru seldir á háu verði og sem mikil eftirspurn er eftir víða á mörkuðum. Þess vegna gengur það ekki upp, hæstv. forsrh., að lifa í þessum draumaheimi, draumaheimi sem er byggður á slíkri skammsýni á staðreyndir sem hér birtist í því að segja að engin spariskírteini hafi verið seld á fyrstu mánuðum ársins 1991 og ætla að afsaka muninn á íslenska hagkerfinu og því sem er að gerast erlendis með þorskinum einum. Þess vegna spyr ég að því skýrt hér í þessum stól og óska svara frá hæstv. forsrh.: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í ljósi þess að bankakerfið hefur nú numið staðar á vaxtalækkunarferlinu við 12--16% raunvaxtastigið? Er það ásættanlegt að dómi hæstv. ríkisstjórnar eða hvað hyggst hún gera? Ef ekki koma skýr svör við því hér í dag við þessa umræðu, þá blasir það við að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er búin að gefast upp í þessu mikla vaxtalækkunarferli. Það eina sem hefur gerst er að henni hefur á litlum hluta markaðarins milli Arnarhvols og bankanna í Austurstræti tekist að lækka vextina á verðbréfum ríkissjóðs. Það er út af fyrir sig ágætt, en það hefur bara ekki haft nein áhrif á þá vexti sem atvinnulífið og einstaklingarnir þurfa að greiða í gegnum bankakerfið. Bankakerfið á Íslandi gengur enn þá laust með sín Alpafjöll í vaxtastigi.
    Því vænti ég þess, hæstv. forsrh., að fá við því skýr svör hér í umræðunni hvert sé álit ríkisstjórnarinnar á þessari stöðu, hvert sé álit ríkisstjórnarinnar á ummælum Jóns Sigurðssonar seðlabankastjóra í Morgunblaðinu í dag og hvað ríkisstjórnin hyggist gera í framhaldi af þeirri staðreynd að raunvextirnir eru 12--16% í bankakerfinu.
    Hæstv. fjmrh. hóf hér í umræðu um annað mál í fyrradag, að flytja játningar Sjálfstfl. í skattamálum, þær játningar að málflutningur Sjálfstfl. allt síðasta kjörtímabil í skattamálum hafi verið óraunhæfur og ekki staðist, játningar um það að yfirlýsingar fjmrh. um það að ekki hafi verið hækkaðir skattar í tíð núv. ríkisstjórnar hafi heldur ekki staðist og það ber að fagna þessum játningum. Sjálfstfl. hélt því fram allt síðasta kjörtímabil að allar skattabreytingar sem þáv. ríkisstjórn tók að sér að framkvæma hefðu verið ónauðsynlegar. Við fórum hins vegar ekki í neinar felur með það sem við vorum að gera. Við vorum ekkert að leyna því að við vorum að breyta sköttum til hækkunar. En Sjálfstfl. sagði allan þann tíma að þetta væru ónauðsynlegar breytingar og greiddi atkvæði á móti þeim. Og í kosningunum lofaði Sjálfstfl. að afnema þær. Í prófkjöri hér í Reykjavík lýsti þáv. frambjóðandi, borgarstjórinn Davíð Oddsson því yfir að hann mundi afnema alla skattana sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar . . .   (Gripið fram í). Hæstv. ráðherra sagði það víst. (Forsrh.: Það eru ósannindi.) Það eru engin ósannindi vegna þess að í útgáfu Heimdallar sem gefin var út og hæstv. forsrh. getur fengið uppi í Valhöll, hjá Kjartani Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Sjálfstfl. og starfandi formanni bankaráðs Landsbankans, var svar þáv. frambjóðanda Davíðs Oddssonar við spurningunni mjög einfalt og stutt: Það voru tveir stafir, raðaðir saman í orðið já. Já. Og ef hæstv. forsrh. ætlar í þriðja sinn að segja að það sé rangt, þá er hann meira að segja farinn að gleyma því sem hann hefur sagt sjálfur.
    Það var aðeins einn frambjóðandi Sjálfstfl. í Reykjavík sem hafði manndóm í sér til að segja að þetta væri líklegast óraunhæft loforð. Það var Geir Haarde, núv. formaður þingflokks Sjálfstfl. Það ber að hæla honum fyrir það og láta það lifa. Allir hinir frambjóðendurnir lýstu því yfir að þeir mundu afnema alla þessa skatta. Nú kemur fjmrh. hér fyrir tveim dögum síðan og lýsir því yfir að þeim hafi nánast öllum verið haldið við. Og það sem meira er, ríkisstjórnin hafi bætt við um það bil 2 milljarða skattahækkun fram að því ári sem við erum hér að ræða, að fjáraukalögin sem við erum hér að ræða, feli í sér um það bil 2 milljarða hækkun á sköttum sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi bætt við. Það eru mikil tíðindi að fjmrh. Friðrik Sophusson skuli nú í fyrsta sinn vera að viðurkenna skattahækkanir þessarar ríkisstjórnar og þá er bara verið að tala um einfaldar skattahækkanir en ekki þjónustugjöldin og það allt saman. Síðan segist hann að vísu ætla að lækka skattana aðeins á næsta ári og fær út svona milljarð nettó í viðbót. Það breytir því ekki að á árinu 1993 sem við erum að ræða hér er í hans eigin gögnum innbyggð skattahækkun upp á rúma 2 milljarða til viðbótar þessum 10. Með öðrum orðum viðurkennir varaformaður Sjálfstfl. og fjmrh. í fyrsta lagi að hann hefur viðhaldið nánast öllum þeim sköttum sem Sjálfstfl. lofaði að afnema og í öðru lagi að hann hefur bætt við 2 milljörðum í viðbót, a.m.k. fram að þeim tíma sem nú er.
    Í sjálfu sér þarf ekki að segja neitt meira um það. En munurinn á okkur og Sjálfstfl. er að við höfum ekki leikið þennan óábyrga leik í stjórnarandstöðunni sem Sjálfstfl. gerði á sínum tíma og ég fagna því að varaformaður Sjálfstfl. hefur þjálfast þannig í fjmrn. að hann er farinn að viðurkenna hlutina.
    Þá kem ég, virðulegi forseti, að því sem er lokaatriðið af þeim sem ég vildi taka hér til umfjöllunar --- og er nú leitt að vera búinn að missa hæstv. forsrh. úr salnum. Ég var engan veginn búinn að tala við hann.
    Hér fyrr á þessu ári fékk hæstv. forsrh. sendan reikning frá Hæstarétti um það að Hæstiréttur ynni nú allt í einu svo mikla yfirvinnu og það væri nauðsynlegt að fá hana greidda. Hæstv. forsrh. framsendi reikninginn til fjmrn. og lét greiða hann og hafði þau ummæli opinberlega að hann deildi ekki við dómarann. Það var þó hæstv. forsrh. ljóst að Hæstiréttur var ekki dómari í eigin launum. Til þess er sérstakur aðili sem ber heitið Kjaradómur þó að hann sé auðvitað ekki dómur í sama skilningi og Hæstiréttur. En nú, hæstv. forsrh., hefur Kjaradómur kveðið upp úrskurð. Og það vill svo til að Kjaradómur úrskurðar

hæstaréttardómurum allt önnur laun en þeir tóku sér sjálfir. Nú blasir sú spurning við hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh.: Hvað á að gera við 13 milljónirnar sem eru í þessu fjáraukalagafrv. og voru ætlaðar til þess að greiða sjálftöku Hæstaréttar? Ætlar ríkisstjórnin virkilega eftir að Kjaradómur hefur kveðið upp þann úrskurð að þessi sjálftaka Hæstaréttar sé röng --- því að það er það sem Kjaradómur hefur gert, Kjaradómur hefur kveðið upp úrskurð um það hvaða laun hæstaréttardómarar eiga að hafa og þau eru önnur en sjálftökuliðið í Hæstarétti ákvað sér --- ætlar ríkisstjórnin virkilega að afgreiða þetta fjáraukalagafrv. þannig að Hæstiréttur fái bæði sjálftökupeningana óáreitta og óskerta og síðan laun samkvæmt þeim úrskurði sem Kjaradómur kvað upp? Og þannig verði bara tilkynnt gagnvart öllum stofnunum í ríkiskerfinu sem heyra undir Kjaradóm: Gjörið þið svo vel. Þið getið tekið ykkur hvaða yfirvinnu sem þið viljið eftir sjálftökuleiðum og við munum ekki hrófla neitt við því þó að Kjaradómur sé ekki búinn að kveða upp úrskurð? Auðvitað er það þannig að úrskurður Kjaradóms verður að liggja til grundvallar, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Ég ætla bara rétt að vona að ríkisstjórnin fari ekki að ganga inn á þær brautir hér, nógur er nú orðinn ruglandinn í þessu öllu saman, að láta afgreiðslu þessa frv. vera með þeim hætti að Hæstiréttur fái bæði sjálftökupeningana og launagreiðslu samkæmt Kjaradómi. Þess vegna er það alveg ljóst að það verður að lækka þessa 13 millj. kr. upphæð í fjáraukalagafrv. Við höfum óskað eftir því, þingmenn Alþb. og fulltrúar okkar í fjárln., að Ríkisendurskoðun reikni út hver þessi upphæð á að vera samkvæmt úrskurði Kjaradóms. Og það eitt er víst að hún er mun minni heldur en ríkisstjórnin fer fram á í þessu frv. Þess vegna munum við breyta okkar brtt. á þann veg að hún verði nákvæmlega upp á það sem Kjaradómur úrskurðaði. Ekki krónu meira. Við munum þess vegna draga þá tillögu sem við fluttum hér upphaflega til baka til 3. umr. og breyta henni á þann veg að eingöngu sé veitt heimild til þess að greiða Hæstarétti það sem Kjaradómur hefur úrskurðað Hæstarétti. Og ég vona satt að segja að ríkisstjórnin styðji þá brtt. og er alveg reiðubúinn til samvinnu við ríkisstjórnina um það að hún flytti hana sjálf. Það er ekkert kappsmál fyrir okkur í Alþb. að flytja tillöguna sjálf, en hitt vona ég að ráðherrarnir sjái að það gengur ekki upp að þingið afgreiði þetta fjáraukalagafrv. á þann veg að þingið hafi ekki tekið eftir því að Kjaradómur hafi kveðið upp úrskurð í launum hæstaréttardómara. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að því hvort þeir telji ekki eðlilegt að breyta upphæðinni í fjáraukalagafrv. í samræmi við úrskurð Kjaradóms.
    En málinu er ekki lokið. Fyrir nokkrum dögum síðan kvað kjaranefnd upp úrskurð um launahækkanir handa prestum sem nema tugum prósenta. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er það ekki eðlilegt fyrst ráðherrann kom með fjáraukalagafrv. þar sem beðið var um fjárheimildir vegna sjálftöku Hæstaréttar að þessu fjáraukalagafrv. sé breytt í samræmi við úrskurð kjaranefndar varðandi prestana? Eða á líka að afgreiða þetta frv. þannig eins og þingið hafi ekki tekið eftir því að kjaranefnd er búin að úrskurða prestum hér launahækkanir upp á tugi prósenta? Það verður auðvitað að vera einhver samkvæmni í því sem menn eru að gera.
    Vandinn er hins vegar sá að miðstjórn Alþýðusambandsins og forusta BSRB hefur látið í ljósi skoðanir sem ég óska eftir að hæstv. forsrh. tjái sig um hér í ræðustólnum. Bæði formaður BSRB og forseti ASÍ segja í Morgunblaðinu í dag að það sé nauðsynlegt að samræmi sé í þeim kjarabótum sem úrskurðaðar eru æðstu embættismönnum ríkisins og þeim kjarabótum sem fólkið í landinu fær. Eða eins og einn góður maður orðaði það, að það sé sanngjarnt að þeir sem útbúi jólamatinn og afgreiði hann í verslununum og þeir sem beri út jólapóstinn og þeir sem afgreiði jólabækurnar fái sömu kjarabreytingu og þeir sem fari með jólaguðspjallið. Það sé ekki verið að mismuna mönnum svona í jólahátíðinni eftir framlagi þeirra til jólahátíðarinnar. Jólamaturinn, jólabækurnar og jólapósturinn eigi alveg sama rétt á því og jólaguðspjallið að sitja við sama borð í kjaramálum. Eða á virkilega að fara að innleiða hér þá launastefnu að það sé svona miklu dýrmætara, með allri virðingu fyrir jólaguðspjallinu, að annast þann þáttinn í jólahaldinu?
    Það þarf ekki mikla skynsemi til að átta sig á því að launafólk á Íslandi hefur sýnt mikla sanngirni, og ég reikna með að hæstv. forsrh. sé reiðubúinn að viðurkenna það að launafólkið á Íslandi hefur sýnt mikla sanngirni, að vera reiðubúið að ganga fyrst til samninga og framlengja samninga í trausti þess að allir verði látnir sitja við sama borð og skerðing á kjörum verði þoluð vegna þeirra erfiðleika sem þjóðin stendur í. Þess vegna er spurt að því vegna þess að Alþýðusambandið er nýlega búið að framlengja þessa samninga í trausti þess að eðlileg sanngirni og jafnrétti yrði látið hér gilda. Og félagsmennirnir í félögum BSRB sem nýlega gerðu kjarasamning eiga að greiða atkvæði um þá eftir skamman tíma og önnur félög BSRB, sem voru reiðubúin að ganga að samningaborði fyrir nokkrum dögum síðan, hika nú og vilja fá að vita: Eru það bara sumir starfsmenn ríkisins sem eiga að fá launahækkanir? Bara sumir? Bara þeir sem eru í Hæstarétti? Bara þeir sem vinna hjá kirkjunni? Ég heyrði hæstv. forsrh. segja það að Kjaradómur mundi síðan ekki úrskurða fleirum hækkanir. Hvaðan hefur hæstv. forsrh. það? ( Forsrh.: Sagði ég það?) Ja, ég heyrði ekki betur en hæstv. forsrh. segði það í einhverjum fjölmiðlinum og hann leiðréttir það þá ef það ( Forsrh.: Þingmaðurinn þarf að fara nákvæmar með þetta.) Þá vona ég bara að hæstv. forsrh. fari nákvæmlega með það sem hann sagði sjálfur hérna á eftir því að ég hrökk satt að segja við fullyrðingar ráðherrans um að það mundu ekki fleiri koma á eftir vegna þess að það var sagt í því samhengi að næstir kæmu alþingismenn. Og ég held að forsrh. hafi einmitt fullyrt það að þingmenn mundu ekki koma þar á eftir, það yrði látið staðar numið. Kannski hefur mér misheyrst og þá er ég alveg reiðubúinn að draga þessa fullyrðingu mína til baka því að ég vona að mér hafi misheyrst.

    Mér fannst satt að segja þessar yfirlýsingar forsrh. um hvað mundi gerast næst hjá Kjaradómi vera dálítið furðulegar og ég vona bara að hæstv. forsrh. sé ekkert að fikta í Kjaradómi þó hann hafi þangað góð sambönd eins og allir vita og það sé a.m.k. ljóst að það verði ekkert úrskurðað í Kjaradómi fyrr en kosningarnar hafa farið fram í Rússlandi og það getur verið að það verði friður í Kjaradómi þangað til, en eftir að kosningunum er lokið í Rússlandi, þá getur vel verið að Kjaradómur byrji aftur að úrskurða. ( Forsrh.: Hvenær kemurðu heim?) Ég kem heim þann 14. sem og hinn eftirlitsmaður sem skipaður hefur verið af ríkisstjórninni, borgarlögmaður. Hann kemur líka heim 14. og þá verður Kjaradómur á ný fullskipaður. En ég vona hins vegar að þessi gömlu tengsl forsrh. og borgarstjórans fyrrv. við borgarlögmanninn hafi ekki leitt til þess að forsrh. hafi komið sér upp einhverjum ,,extraordiner`` samböndum við Kjaradóm. Þess vegna getur enginn maður gengið út frá því að Kjaradómur muni hér láta staðar numið. Það getur enginn maður gefið sér það, því að ef Kjaradómur ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur, þá hlýtur hann að halda áfram því að það eru engin efnisleg rök fyrir því af hálfu Kjaradóms að taka bara dómarana eina út úr. Engin efnisrök fyrir því. Og þess vegna er ríkisstjórnin komin hér í mikinn vanda. Ætlar hún að taka þátt í því að spila sig þannig með launafólkið i landinu að þorri opinberra starfsmanna fái engar launahækkanir fram á árið 1995, félagar í Alþýðusambandinu ekki heldur en síðan fái hluti þeirra sem starfa hjá ríkinu, starfa hjá dómstólum og hjá kirkjunni, hækkanir upp á marga tugi prósenta?
    Þess vegna segir forseti Alþýðusambandsins í dag að þessi ákvörðun sé ,,mjög ósvífin``. Mjög ósvífin, er orðalag forseta Alþýðusambandsins og hann segir að það verði ekki þolað að launafólk sem taki kjör samkvæmt kjarasamningum færi eitt fórnir meðan aðrir hópar samfélagsins haldi öllu sínu og meira til.
    Ég vil líka vekja athygli hæstv. forsrh. á grein sem mig minnir að hafi birst í Tímanum hjá forstöðumanni Vinnumálasambands samvinnufélaga þar sem hann rakti það hvernig einn efnisþátturinn í úrskurði Kjaradóms gagnvart Hæstarétti um meðferð yfirvinnu og fastrar vinnu, ef það væri yfirfært á almennan vinnumarkað sem sanngjarnt er auðvitað vegna þess að dómnum ber að starfa í samræmi við það, mundi leiða til verulegra breytinga í launakerfinu á almennum vinnumarkaði. Og mér fannst það vera ekki síður varnaðarorð af hálfu þess manns heldur en það sem forseti Alþýðusambandsins og formaður BSRB segja í Morgunblaðinu í dag vegna þess að með þessum úrskurði er Kjaradómur varðandi hæstaréttardómara búinn að búa til nýtt prinsipp í launaákvörðunum sem getur haft afdrifaríkar afleiðingar sé það yfirfært á almennan vinnumarkað.
    Í ályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins sem gerð var í gær segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Verði ekki snúið af þessari braut er ljóst að þeirri þjóðarsátt sem ríkt hefur um atvinnu- og kjaramál hefur verið fórnað.`` --- Hefur verið fórnað, hæstv. forsrh. --- ,,Almennt launafólk hlýtur þá að gera kröfu til þess að kjarasamningar þess verði teknir upp og þeir færðir til samræmis við það sem nú virðist eiga að gera gagnvart embættismönnum. Það verður ekki þolað að launafólk sem tekur kjör samkvæmt kjarasamningum færi eitt fórnir meðan aðrir hópar samfélagsins halda öllu sínu og meira til.``
    Þess vegna spyr ég hæstv. forsrh.: Hvert er álit hans á þessari yfirlýsingu Alþýðusambandsins? Hvert er svar hans við þessari skoðun Alþýðusambandsins? Er það afstaða ríkisstjórnarinnar sem skilja mátti á forsrh. í fjölmiðlum að ríkisstjórnin ætli ekki að aðhafast neitt vegna úrskurðar Kjaradóms eða kjaranefndar? Ef það er afstaða ríkisstjórnarinnar að hún ætli ekki að aðhafast neitt, þá blasir það við að Alþýðusambandið og BSRB munu bregðast við með þeim hætti sem hér er lýst.
    Formaður BSRB segir, með leyfi forseta: ,,Mér finnst eðlilegt að ríkið sé sjálfu sér samkvæmt og bjóði öðrum þessar kjarabætur. Í rauninni ætti að minnka kjaramun en ekki auka hann og það er verið að gera það með þessu, með því að segjast ekki deila við dómarinn en hnakkrífast við lágtekjufólkið og standa á bremsunni gagnvart því. Slíkur málatilbúnaður er náttúrlega algjört og fullkomið siðleysi. Að búa til kerfi, nefndir og kjaradóma fyrir hátekjuhópana og láta þá fá tugprósentahækkun en halda hinum niðurnjörvuðum. Þetta er gjörsamlega óþolandi.``
    Þessar yfirlýsingar forseta Alþýðusambandsins og formanns BSRB, sem báðir hafa á undanförnum vikum tekið forustu um það að reyna að skapa hér sátt á vinnumarkaði, sátt á grundvelli kjarasamninga sem fela ekki í sér neinar kjarabætur handa launafólkinu í landinu, eru mjög alvarlegar. Þess vegna spyr ég hæstv. forsrh.: Hver verða viðbrögð ríkisstjórnarinnar við Kjaradómi og úrskurði kjaranefndar og við yfirlýsingu miðstjórnar Alþýðusambandsins, yfirlýsingu forseta Alþýðusambandsins og yfirlýsingu formanns BSRB? Þegar verið er að ganga frá fjáraukalagafrv. fyrir árið 1993, einum af meginþættinum í stjórn efnahagsmála í landinu, þá er nauðsynlegt að svörin gagnvart vaxtamálunum og gagnvart launamálunum liggi alveg skýrt fyrir.