Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 17:47:24 (2152)


[17:47]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er alveg tilbúinn að ræða við hæstv. forsrh. aðgerðir síðustu ríkisstjórnar í vaxtamálum og það sem nú er að gerast. Ég get reitt fram svona ýmsar tölur sem sýna t.d. að raunvextir óverðtryggðra lána í bankakerfinu á Íslandi fóru lækkandi á síðustu tveimur árum síðustu ríkisstjórnar á sama tíma og þeir voru hækkandi í viðskiptalöndum. Það er hins vegar tilgangslítið karp, hæstv. forsrh. Ég var ekki að spyrja um það. Ég var einfaldlega að biðja um svar hæstv. forsrh. við því hvað hann ætlar að gera þegar sú staðreynd blasir við að raunvaxtastigið í bankakerfinu er 12--16% og bankarnir lækkuðu ekki vextina, ekki um brot úr prósenti í gær. Það er veruleikinn, hæstv. forsrh.
    Svar forsrh. hér var á þann veg að hann svaraði ekki einni spurningu af þeim sem ég bar fram, ekki einni. Hann fór með þessa sömu þulu eins og hann gerði á Rás 2 í gær. Hún er ágæt fyrir málfundi og má halda henni áfram á þeim vettvangi. Hún dugir ekki sem svar við spurningunni: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í ljósi þeirrar staðreyndar að raunvaxtastigið í bankakerfinu á Íslandi er 12--16%?