Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 17:50:09 (2154)


[17:50]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hallast helst að því að forsrh. trúi sjálfur þessu sem hann er að segja hér. ( Gripið fram í: Auðvitað.) Ef svo er, þá er það mjög alvarlegt og greinilegt að einn af nýjum þingmönnum Sjálfstfl., Árni Mathiesen, trúir því líka sem í sjálfu sér er ekki eins alvarlegt. En varðandi forsrh., er það hins vegar mjög alvarlegt.
    Hvað segir Jón Sigurðsson seðlabankastjóri í Morgunblaðinu í dag þegar hann er að skýra það hvers vegna raunvextirnir séu 12--16%? Það eru tvær ástæður. Annars vegar fákeppni bankanna og hins vegar erfið afkoma. Það eru skýringarnar. Mun þetta tvennt breytast, virðulegi forsrh., á næstu mánuðum? Nei. Íslenski peningamarkaðurinn verður áfram fákeppnismarkaður og erfiðleikarnir í sjávarútvegi munu á þessum vetri og á næsta ári leiða til áframhaldandi erfiðrar afkomu bankakerfisins. Þess vegna spurði ég hér í dag vegna þess að Jón Sigurðsson seðlabankastjóri segir það á baksíðu Morgunblaðsins í dag að það séu engar forsendur fyrir raunvaxtalækkun í bankakerfinu. Það er það sem seðlabankastjórinn segir í dag og það er eins og hæstv. forsrh. hafi ekki skilið það hvað er að gerast í hinni raunverulegu veröld í þessum efnum.