Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 17:57:21 (2158)


[17:57]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Enn á ný skýtur hæstv. fjmrh. sér undan því að ræða það sem máli skiptir. Það sem máli skiptir eru 12--16% raunvextir í íslenska bankakerfinu. Það sem máli skiptir er hvernig Kjaradómur og kjaranefnd eru að fara með launamálin í landinu. Ekki orð um þetta. Ekki orð um það að bankakerfið er að sigla vaxtalækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar í strand, ekki orð um það. Í staðinn er talað um Jeltsín, kosningar í Rússlandi, landsfund Alþb. ( Forsrh.: Hver byrjaði að tala um kosningar í Rússlandi?) Já, það er rétt, hæstv. forsrh., að ég vék hér að því að einn af kjaradómsmönnum, undirmaður fyrrv. borgarstjóra, Davíðs Oddssonar, er í Rússlandi til að fylgjast með kosningum og þess vegna væri ekki að vænta nýs úrskurðar í Kjaradómi fyrr en borgarlögmaður og sérstakur vinur forsrh. kæmi heim. (Forsrh.: Sem sagt, þú byrjaðir að tala um það.) En ég vona hins vegar að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., í umræðunum á eftir, fari nú að svara einhverju sem þeir voru spurðir um. Ég er hins vegar alveg reiðubúinn að tala um kosningar í Rússlandi, en helst ekki undir fjáraukalögum 1993. ( Gripið fram í: Hann byrjaði sjálfur.)