Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 18:15:14 (2161)


[18:15]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hefur komið fram hjá öllum þeim mönnum sem fróðastir eru í þessum málum og á þessum markaði að þeim ber saman um það að vaxtalækkun sem nú hefur orðið sé ekki bara varanleg, hún sé líkleg til að aukast, þ.e. lækkunin verði meiri. Öllum ber saman um það. Og það sem meginmáli skiptir, traustið á markaðnum sem kemur fram í útboðum ríkisins nú fyrir aðeins örfáum dögum síðan á langtímabréfum, óverðtryggðum langtímabréfum, sýnir hið sama. Þannig að þingmaðurinn á ekki að vera með tal í þessa veru og reyna að skapa vantraust á markaðnum, enda verður honum ekki trúað. Miklu fremur verður þessum markaðsöflum sjálfum trúað og því sem allir þessir sérfræðingar hafa sagt. En ef hv. þm. trúir því sem hann sagði sjálfur, að það væri rangt hjá mér að nú hefðu skapast skilyrði til þess að vextir mættu lækka, hvernig stóð þá á því að ríkisstjórninni sem hann studdi og var starfandi aðstoðarráðherra í skyldi aldrei takast að lækka vextina og raunvextir á hennar tímabili skyldu vera 2--3% hærri heldur en þeir eru núna, sem er varanlegt.