Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 18:17:42 (2163)


[18:17]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá þingmanninum þá hafa raunvextir bankanna þegar lækkað.

Nafnvextirnir hafa verið að lækka en ekki í takt við verðbólguna. Þeir hafa lækkað um 5 eða 6%, verðbólgan hefur lækkað miklu hraðar frá toppnum sem hún skaust upp í, eins og menn muna, um sumarmál. Þannig að taka þennan þátt út úr og fullyrða það að þetta sýni raunvaxtastigið er blekking. Og staðreyndin er sú að vaxtastig á raunvaxtakjörum var um 8% þegar fyrrv. ríkisstjórn fór frá og var ekki mikið lægra á því tímabili þegar hún fór frá og sú er staðreyndin og fram hjá því komast menn ekki. Reyndar sagði einn hv. þm. hér áðan, sem er ekki nú í salnum, þó hér til hliðar, að seðlabankastjóri hefði ekki trú á því að þetta mundi lækka. En ég var að lesa þá úrklippu sem sá hv. þm. vitnaði í og hann tekur það sérstaklega fram, seðlabankastjórinn, að auðvitað muni þetta ná jafnvægi og vextir muni lækka.