Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 18:18:42 (2164)


[18:18]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem skiptir þó auðvitað langmestu máli í þessu sambandi, hæstv. forsrh., er það, og ég tek undir það með hæstv. forsrh., hvort markaðsöflin hafa í raun og veru trú á því að vextir séu að lækka. Og viðbrögð markaðsaflanna, sem eru í þessu tilfelli viðskiptabankarnir að langstærstum hluta til, eru þau að þessar stofnanir hafa ekki trú á vaxtalækkuninni. Þau fylgja henni ekki eftir nú, hæstv. forsrh. En það sem ég, hæstv. forsrh., var að leggja áherslu á er að það er jafngildi þess að prenta peninga að taka 8--9 milljarða kr. út úr Seðlabankanum og henda út á markaðinn. Það er jafngildi þess að prenta peninga. Það gefur auðvitað falska mynd af því hver markaðsstaðan er vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki skapað þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja langvarandi vaxtalækkun og það gerist ekki. Ég er sammála hæstv. forsrh. í því og hann svaraði ekki þeirri fyrirspurn minni hér áðan, að það er forsenda fyrir því að menn nái niður fjárlagahallanum og það er það sem ríkisstjórnin er ekki að gera vegna þess að hann er 13,8 milljarðar á þessu ári, hann verður á bilinu 16--20 milljarðar á árinu 1994. Og það er alvarlegt. Og það er þess vegna alvarlegt ef ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn sem vita betur, eru að gefa fölsk, ég segi fölsk skilaboð út á markaðinn um að hér sé um raunverulega vaxtalækkun að ræða, því hún mun bara ná, því miður, fram á mitt árið 1994. Menn hafa keypt sér frið fram yfir sveitarstjórnarkosningar til að sýna betri stöðu.