Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 18:22:20 (2166)


[18:22]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er náttúrulega mjög einkennilegt af hæstv. heilbr.- og trmrh. að halda því fram að menn hafi náð verulegrum árangri í sparnaði sjúkrahúsa hér á höfuðborgarsvæðinu. Nú veit ég ekki hvort hæstv. ráðherra hefur fylgst með umræðunni hér í dag eða þá ekki lesið það frv. sem er til umfjöllunar. Sparnaður sem menn hafa reiknað sér af bráðavöktum og öðru slíku er bara ekki til staðar. Hæstv. ráðherra verður að tala við stjórnendur þessara sjúkrahúsa sem hafa m.a. komið á fund bæði fjárln. og heilbr.- og trn. Þeir fullyrða að það sé ekki um neinn sparnað að ræða af þessu, enda er verið að láta þessi sjúkrahús hafa í þessu fjáraukalagafrv. hundruð millj. kr. og hvar er sparnaðurinn þá?
    Það sem er alvarlegast er það að byggja upp til framtíðar tvö sjúkrahús í Reykjavík sem fara í bullandi samkeppni um takmarkaða fjármuni, tvö háskólasjúkrahús. Og bara það að gera bæði þessi sjúkrahús að háskólasjúkrahúsum mun þýða útgjaldaauka strax á bilinu 400--600 millj. kr. Fyrir utan það, hæstv. ráðherra, ef menn ætla ekki að koma neinni verkaskiptingu á milli sjúkrahúsanna, þá mun þetta leiða til þess að það verður samkeppni um sérfræðingana, það verður samkeppni um tækin og búnaðinn. Og ef það er til búnaður á sjúkrahúsunum, þá kallar það á sérfræðinga þangað og ef það eru ráðnir sérfræðingar inn á stofnanirnar, þá kallar það á tæki. Fyrir utan það að auðvitað mun sameinaður Borgarspítali og Landakotsspítali fara út í hjartaskurðlækningar þegar fram líða stundir, það sem er fyrir í dag á Landspítalanum. Og þannig mætti lengi, lengi telja, hvernig menn munu tvöfalda allt kerfið á báðum sjúkrahúsunum, í stað þess að fara nú í alvarlega umræðu og tilraunir til verkaskiptingar milli þessara sjúkrahúsa. Það er það sem þarf að gera, hæstv. heilbr.- og trmrh., en ekki að fjölga hátæknisjúkrahúsunum á þessu svæði.