Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 21:24:38 (2187)


[21:24]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þótt að hæstv. fjmrh. sé að gera tilraun til þess að svara þá er það ekki tæmandi, hæstv. ráðherra. Ég spurði að því og spyr enn: Er það tillaga ríkisstjórnarinnar að upphæð sem samsvarar kjaranefndarúrskurði til presta verði tekin inn í þetta fjáraukalagafrv.? Það hefur ekki komið neitt svar við því.
    Í öðru lagi spurði ég að því hvort ríkisstjórnin ætlaði að halda til streitu að Hæstiréttur héldi sinni sjálftöku þótt að Kjaradómur væri búinn að úrskurða honum annað og má skilja fyrri ræðu ráðherrans í kvöld að svo sé?
    Í þriðja lagi sagði hæstv. ráðherra að forsrh. hefði í andsvörum í dag svarað spurningu minni um afstöðu ríkisstjórnarinnar til yfirlýsingar miðstjórnar Alþýðusambandsins. Ég var að vísu ekki alveg allar mínútur umræðunnar en sat þó nokkuð í umræðunum, ég heyrði ekkert svar frá hæstv. forsrh. við því. Það er a.m.k. ljóst að þegar ég bar upp þá fyrirspurn til hans í dag þá kom ekkert svar við þeirri spurningu, ekki neitt. Þannig að það væri fróðlegt að fá frá hæstv. fjmrh. hvenær hæstv. forsrh. svaraði þeirri spurningu í umræðunni í dag, sérstaklega þegar hæstv. fjmrh. sagðist vera sammála svari hæstv. forsrh.
    Því miður er það þannig, hæstv. ráðherra, að þetta er ekki nóg. Við höfum engan áhuga á því að lengja þessa umræðu en ég vona að hæstv. ráðherra skilji það og hæstv. forseti skilji það einnig, sem sat í fjárln. þegar sá sem hér stendur var fjmrh., að það er forsenda þess að við getum lokið þessari umræðu að það sé gerð a.m.k. tilraun til þess að svara þeim spurningum sem við berum fram. (Forseti hringir.) Og má ég minna á það í því sambandi að þegar Sjálfstfl. fannst ekki vera svarað á síðasta kjörtímabili þá óskaði Sjálfstfl. einfaldlega eftir að umræðum væri frestað þar til svör væru veitt.