Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 21:29:00 (2189)


[21:29]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að það er almennur liður sem ætlaður er til að mæta slíkum breytingum. En það hefur hins vegar vakið athygli, hæstv. ráðherra, að fjmrh. sá ekki ástæðu til að nota þann lið hvað snertir sjálfstöku yfirvinnugreiðslu Hæstaréttar og auknar launagreiðslur til dómaranna. Þar fer ráðherrann fram með þeim hætti að setja það sem sérstakan lið inn í þetta fjáraukalagafrv. og biðja um fjárveitingu í það. Fyrst nauðsynlegt er að biðja um sérstaka fjárveitingu vegna launahækkunar hæstaréttardómara þá er eðlilegt að menn spyrji af hverju sama reglan sé ekki notuð hvað snertir launahækkun til presta.
    Hins vegar svaraði hæstv. fjmrh. engu síðari spurningu minni, ekki einu orði. Það var spurningin hvenær hæstv. forsrh. hefði svarað spurningu minni um afstöðu hans til yfirlýsingar Alþýðusambandsins sem fjmrh. vitnaði í fyrr að forsrh. hefði gert og sagðist meira að segja vera sammála því svari. Ég heyrði ekki það svar. Fyrr en fjmrh. getur staðfest það fyrir mig og lýst hvað í því var þá er ekki hægt að ljúka þessari umræðu nema hæstv. forsrh. komi og svari þeim spurningum sem til hans var beint. Það er ekki í þágu forsrh. eða hæstv. ríkisstjórnar að forsrh. sýni ekki þá lágmarkskurteisi að gera a.m.k. tilraun í almennum umræðum til þess að svara þeim fáeinu spurningum sem til hans hefur verið beint. Því ítreka ég það til hæstv. forsrh. sem hér er í húsinu og til forseta að forsrh. láti okkur heyra svör sín við spurningum sem hér hafa verið bornar fram.