Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 21:33:03 (2191)


[21:33]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið nokkuð fjörleg umræða í dag og margt nefnt sem hefur verið forvitnilegt að fylgjast með, sérstaklega svörum hæstv. ráðherra sem hafa verið ýmist engin eða jafnvel í skötulíki. Ég verð að segja það að þennan þriðja vetur sem ég sit hér þá þykir mér það áberandi verra núna hversu ráðherrar leyfa sér meira en áður að hunsa spurningar þingmanna. Ég vona að það sé ekki þróun sem hefur orðið í kjölfar mannabreytinga hjá Alþfl. að hinir ungu menn og nýju ráðherrar ýti undir þessa þróun og vænti þess frekar að þeir mundu beita sér fyrir því að svara skynsamlega og svara yfir höfuð spurningum sem til þeirra er beint. En ég get tekið undir það sem hér kom fram í máli hv. 8. þm. Reykn. að þegar þeir tveir ráðherrar svöruðu spurningum hans, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., þá var ekki neinum spurningum svarað af þeim sem þingmaðurinn bar fram. Það get ég alveg vottað því ég fylgdist grannt með þeirri umræðu. Mér fannst satt að segja sú andsvaralota vera með mesta móti út í hött, sérstaklega af hálfu hæstv. ráðherra, og verð að segja af því að það er ólíkt þeim að vera svo ómálefnalegir að það komi mér á óvart hversu langt þeir leyfðu sér að ganga í þessu efni.
    En það sem mig langar til að vekja aðeins máls á er einmitt staðan í byggðamálum. Þegar maður les það sem er í þessu frv. til fjáraukalaga um byggðamál þá er það ekki mikið og greinilegt að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki nein áform um sérstakar aðgerðir í þeim efnum þrátt fyrir að Byggðastofnun hafi sent inn sérstakt erindi til ríkisstjórnarinnar með formlegri beiðni um fjárstuðning. Ég vil óska eftir því við hæstv. forsrh. að hann svari því í þessari umræðu hver áform ríkisstjórnarinnar eru í þeim efnum sem erindi Byggðastofnunar lýtur að. Það kemur fram í athugasemdum með þessu frv. að áætlað er að leggja fram á haustþingi frv. um þróunarsjóð sjávarútvegsins. Nú er haustþingi senn að verða lokið og ekki bólar á frv. og hæstv. sjútvrh. fæst ekki til að upplýsa hvenær frv. verður lagt fram. Hann hefur ekki einu sinni fengist til þess að upplýsa fyrir hvaða jól frv. muni fram koma. En það er afar mikilvægt fyrir marga útgerðarstaði að fá vitneskju um það hvað á að gera við þær aflaheimildir sem liggja í Hagræðingarsjóði og samkvæmt laganna hljóðan á að selja fyrir fé af yfirstandandi fiskveiðiári og átti að bjóða þær til sölu strax í september í haust. Þannig að miðað við laganna hljóðan eins og þau er í dag þá átti þetta fé að vera komið inn í ríkissjóð og aflaheimildirnar á auðvitað að óbreyttum lögum að selja svo fljótt sem auðið er.
    Hér er ekki að finna neina breytingu á þeim lögum sem hefur svona bein áhrif á fjárhag ríkissjóðs og tengist því þessu frv. að það er eðlilegt að menn spyrji eftir því.
    Nýlega var birt samantekt yfir afla, sundurliðaðan eftir landshlutum, miðað við fyrstu 10 mánuði þessa árs. Það er fróðlegt að skoða greiningu á þeim tölum því þá verður mönnum ljóst hversu knýjandi er að menn svari spurningum um hvað á að verða um aflaheimildirnar í Hagræðingarsjóði. Þá verður mönnum líka ljóst hvers vegna menn eru svona misjafnlega háværir eftir landshlutum. Það er vegna þess að menn hafa skipt gæðunum misjafnt eins og þingheimur veit. Menn vita hvernig ákvarðanirnar voru teknar á sínum tíma um það magn sem mátti veiða úr fiskstofnunum og hvað það var aukið úr sumum stofnum á móti því að það var skert í þorski. Þetta hafði í för með sér að aflaheimildir jukust jafnvel hér á suðvesturhorninu á meðan þær drógust saman annars staðar, misjafnlega mikið, en þó mest á Vestfjörðum. Þetta endurspeglast í tölum yfir heildarafla yfir fyrstu 10 mánuði þessa árs. En þar kemur fram að á Suðurlandi jókst aflinn fyrstu 10 mánuði þessa árs borið saman við fyrstu 10 mánuði síðasta árs um 1,1%. Á Vesturlandi jókst aflinn um tæp 11%. Á Reykjanesi jókst aflinn um rúm 13% samkvæmt þessu yfirliti. Síðar var samdráttur á Austfjörðum um 7% eða 3.700 tonn. Á Norðurlandi um 7,9% eða 6.800 tonn. En á Vestfjörðum var samdrátturinn þessa fyrstu 10 mánuði ársins 21% eða 12.397 tonn. Er það von að höggið komi þyngst þar niður og fyrst þar sem samdrátturinn er mestur? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að mæta því? Hún sagðist ætla að draga úr áfallinu sem menn kalla svo þegar þorskveiðar eru dregnar saman. Þessar tölur staðfesta að það hefur ekki verið jafnað, þvert á móti, það hefur ekki verið jafnað. Og ég spyr hæstv. forsrh., yfirmann byggðamála á landinu: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að draga úr þessu áfalli?
    Menn geta lesið t.d. í síðasta tölublaði Ægis um skuldastöðu sjávarútvegs eins og þá grundvallarstaðreynd sem þar kemur fram að skuldir í sjávarútvegi eru verulega hærri en útvegurinn getur borið. Þar kemur t.d. fram að ársveltan sé um 70 milljarðar og það sé þumalfingursregla að skuldþol atvinnugreinarinnar sé jafnmikið. En skuldirnar eru hins vegar um 86 milljarðar kr. eða um 16 milljarðar umfram það sem greinin er talin þola. Það hlýtur auðvitað, hæstv. forseti, að kalla á aðgerðir af hálfu ríkisstjórnar sem ætlar að vera marktæk í atvinnumálum hvort sem það eru sértækar aðgerðir eða almennar aðgerðir. Ríkisstjórnin getur valið um það að mínu viti. En engin ríkisstjórn getur leyft sér að gera ekki neitt. Það er alveg ljóst. Miðað við þær aðstæður sem eru í sjávarútvegi hvað varðar skuldsetningu og samdrátt á afla sem þegar er kominn mjög harkalega niður á einu svæði landsins og mun svo koma fram af miklum þunga á öðrum stöðum, eins og Norðurlandi og Austfjörðum þegar líður á vetur, verður ríkisstjórnin að grípa til aðgerða. Það er ljóst. Að öðrum kosti er hún að framkalla fjöldagjaldþrot fyrirtækja með tilheyrandi atvinnuleysi. Það atvinnuleysi eru menn að sjá í tölum í fjáraukalögum að kostar mikla peninga. Það er hægt

að leggja nokkuð á sig til að komast hjá því að verða fyrir slíku áfalli.
    Það má minna á það að ekki hefur farið fram nein umræða um byggðamál í þinginu í tvö ár. Það var engin umræða á síðasta hausti og umræðunni sem átti að verða í haust var frestað og ég hef ekki fengið fréttir af því hvenær hún eigi að verða. En mér þykir sjálfum nokkuð ljóst að hún verður varla á þessu haustþingi. Þannig að ekki fáum við tækifæri til þess fyrir jól að fara yfir þau mál og inna hæstv. ríkisstjórn eftir því hvað hún ætlar sér að gera í þessum efnum á þessu ári.
    Ég vel því þann kost að inna eftir þessu núna enda á það fullt erindi inn í þessa umræðu svo nátengt sem það er fjármálum ríkissjóðs á ýmsa vegu og aðgerðir sem gripið verður til ef það verður hljóta að koma við pyngju ríkissjóðs sem og annarra og verður því að gera ráð fyrir þeim á fjáraukalögum.
    Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forsrh. hafi heyrt þær spurningar sem ég beindi til hans. Ég spurði hann almennt um áform ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, hvað hún hygðist gera til að jafna þetta áfall sem sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir og er misjafnt og nefndi sérstaklega Vestfirði þar sem samdráttur í afla hefur á þessu ári orðið 21% á fyrstu 10 mánuðum þessa árs. Það segir sig sjálft að það er gríðarlegt áfall og einkum þegar litið er til þess að stór hluti af þeim samdrætti er vegna þorskveiða, að það kemur við atvinnulíf og það kemur við stöðu atvinnufyrirtækja. Það væri hlálegt þó það sé grafalvarlegt mál ef það ætti fyrir mönnum að liggja að það væri undir stjórn Sjálfstfl. sem öll helstu sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum færu á hausinn. Það þætti einhvern tímann saga til næsta bæjar ef stjórn þess flokks í atvinnumálum væri með þeim hörmulega hætti að undir þeirri stjórn þrifist ekki þessi grundvallaratvinnuvegur landsmanna.
    En í trausti þess að hæstv. forsrh. komi hér til svara af hálfu ríkisstjórnarinnar við spurningum mínum varðandi aðgerðir hvað varðar byggðamál og sjávarútveg þá læt ég máli mínu lokið að sinni en hlakka til þess að heyra svör hæstv. forsrh.