Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:10:43 (2197)


[22:10]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Sannleikurinn er nú sá að það kemur fram í þessari margumræddu sjúkrahússkýrslu, sem er auðvitað merkilegust fyrir þær sakir að hún segir að undanskildum þessum tillögum bara sannleikann um bókhald viðkomandi sjúkrahúsa og það segir manni þá og veltir þeirri spurningu upp: Hefur stefnan fram undir þetta verið röng? Hvernig stendur á því að fólk sækir ekki þjónustu í heimahéraði þegar aðstaðan er til staðar, mannaflinn er til staðar? Hvað er að? Það eru þessar spurningar sem við þurfum að spyrja okkur og leita sameiginlegra svara. Eitt svarið kann að vera það sem hv. þm. nefndi hér áðan. Önnur svör kunna að liggja í tillögum þessarar embættismannanefndar sem hér hefur verið úthrópuð í þingsölum, en allt að einu hljótum við að spyrja okkur fyrst og síðast um þetta: Hefur þessi heildstæða uppbygging um land allt sem að mörgu leyti hefur verið mjög myndarleg mistekist í einhverju? Þurfum við að breyta þarna um stefnu? Ég leita eftir samstarfi og samvinnu við þingheim um það að marka svör við þessum áleitnu spurningum. Við komumst ekki hjá því.