Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:11:50 (2198)

           [22:12]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. ræddi hér um þann sparnað sem alltaf er verið að halda fram að hafi tekist á sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu og ég vil þá spyrja hann: Telur hann það sparnað þegar þarf 100 millj. nú í fjáraukalögum til þess að koma til móts við halla Landakots frá síðasta ári? Það er vissulega rétt, en þetta byrjaði þá. Borgarspítala vantaði 107 millj. samkvæmt því sem þeir sögðu okkur í morgun. Ríkisspítalar fá samkvæmt tillögu meiri hlutans nú 103 millj. kr. og það er ekki nægilegt til að rétta við hallann. Ríkisendurskoðun talaði um að það hefði náðst á síðasta ári rúmlega 400 millj. kr. sparnaður. Samt fékk Borgarspítali sérstaklega 200 millj. kr. til þess að standa fyrir öllum þessum breytingum. Mér sýnist vera orðið lítið um sparnaðinn. Því sem hugsanlega væri eftir, eins og ég sagði í dag, hefur verið velt yfir á sjúklinga. Þessi svokallaði sparnaður hefur nefnilega verið framkvæmdur algjörlega stefnulaust og jafnvel fulltrúi Sjálfstfl. í stjórn Borgarspítala sá ástæðu til að auglýsa eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í sjúkrahúsmálum.