Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:14:36 (2201)


[22:14]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni hér í dag spurði ég hæstv. heilbrrh. nokkurra spurninga, en því miður varð ég of seinn til umræðunnar til þess að fylgjast með hvort hann hefði haft tækifæri til að svara en held þó að hann hafi ekki svarað. Þó mun hann hafa sagt að það væri rugl að byggja upp tvö hátæknisjúkrahús hér í borginni. Það er gott að heyra það. En fyrsta skrefið til þess að sýna að einhver alvara fylgi slíkum orðum er það að svara því hvar þeir ætla að koma barnadeild Landakotsspítala fyrir. Það er alveg rétt að það er ekki fullkominn barnaspítali á Landspítalanum vegna þess að eins og hæstv. ráðherra sagði eru þær stofur sem þar eru barn síns tíma og það þarf að gera breytingar. En ég sé ekki muninn á því að ætla að koma fyrir barnadeild í öldrunarsjúkrastofunum á Borgarspítalanum. Þær eru líka barn síns tíma. Það verður ekki orðið við þessum óskum sem uppi eru nú og kröfum um að vel sé búið að aðstandendum barnanna fyrr en byggður verður fullkomin barnaspítali. Og ætla menn þegar að þeirri ákvörðun kemur að vera með þessa barnaþjónustu dreifða um allan bæ? Þess vegna er það grundvallaratriði, hæstv. ráðherra, að þú svarir því hvort þú ætlir að ákveða hvar barnadeildin verður staðsett.