Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:16:14 (2202)


[22:16]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var eitt rétt hjá virðulegum ræðumanni og hv. þm. Finni Ingólfssyni. Hann var ekki kominn þegar ég hélt ræðu mína. Ég lýsti hér viðhorfum til mála. (Gripið fram í.) Ég lýsti hér viðhorfum sem hefðu heyrst til þessara mála. Ég sagði jafnframt að ég hefði ekki endanlega tekið afstöðu til þess, væri hins vegar í viðræðum við forsvarsmenn allra þessara spítala þessa dagana og mundi lýsa mínum hugmyndum á allra næstu dögum. Barnadeildarmálið er að sönnu lykilatriði í því sambandi. Kannski er það allt of mikið, og ég leyfi mér að sletta, ,,prestige``-atriði í þessu verkaskiptamáli öllu. Það kann að leiða af þeirri staðreynd einni saman að það er næst í tíma. En allt að einu þá vænti ég þess að ég geti náð um það tiltölulega góðri samvinnu og samstöðu með forsvarsmönnum spítalans hvernig þeim málum verði best skipað.