Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:20:37 (2206)


[22:20]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Forsvarsmenn sjúkrahússins eða Ríkisspíalanna lýstu því yfir í fjárln. í morgun að þeir hefðu gert ráð fyrir því að þetta yrði bætt. Ekki gæti verið að ráðuneytið ætlaðist til að þessi hækkun yrði aftur tekin til baka á næsta ári. Það var, held ég, orðrétt það sem þeir sögðu eða spurðu, hvort það væri meining stjórnvalda að laun hjúkrunarfræðinganna sem bætt voru á sl. vori yrðu aftur lækkuð til þess sem hafði verið áður.
    Og tímans vegna langar mig að nota þessa hálfu mínútu sem ég eftir til þess að árétta varðandi þvottahúsið að ég held að hæstv. ráðherra hafi sagt það áðan að forsvarsmönnum sjúkrahússins hafi verið gerð grein fyrir því að þessar tekjur yrðu ekki bættar. Það var þveröfugt. Forsvarsmönnum sjúkrahússins var gerð grein fyrir því strax og ákveðið var að þvottahúsinu yrði ekki breytt í hlutafélag að þeir þyrftu ekki að gera ráðstafanir til þess að innheimta þessar sértekjur á móti og þetta yrði bætt. Það var alla vega skilningur stjórnenda og það hefur margsinnis komið fram á stjórnarnefndarfundum. Ég trúi því ekki að það geti verið svo algjörlega á skjön annars vegar það sem hæstv. ráðherra telur og hins vegar það sem okkur hefur verið gerð grein fyrir í stjórnarnefndinni.