Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:42:23 (2209)


[22:42]

     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það hefur ítrekað hér í kvöld verið óskað eftir því að hæstv. forsrh. svaraði þeim spurningum sem til hans hefur verið beint í umræðunni. Samhengið á milli efnahagsmálanna og fjárlaganna er svo augljóst að það á ekki að þurfa að rökstyðja það hvers vegna hæstv. forsrh., ráðherra efnahagsmála, verður að svara þeim spurningum sem til hans hefur verið beint. Hann hefur enga tilraun gert til þess. Hæstv. heilbrrh. hefur sýnt mikinn myndarskap í að taka þátt í umræðum hér í kvöld og reynt að svara sínum fyrirspurnum.
    Nú er komið að því að við ýmsir sem höfum talað hér einu sinni, nýtum rétt okkar til að tala aftur og höfum þar með engan rétt lengur í þessari umræðu. Ég mælist til þess við hæstv. forseta, að hann geri ráðstafanir til þess að hæstv. forsrh. sé hér í salnum og svari þeim spurningum sem til hans er beint, svo hægt verði að ljúka þessari umræðu á eðlilegum tíma. Ef hæstv. forsrh. gerir það ekki, þá er þessi umræða komin í ákveðið óefni. Ég ítreka þess vegna þau tilmæli að hæstv. forsrh. komi til fundarins, sé við umræðuna og svari þeim spurningum sem til hans er beint.
    ( Forseti (StB) : Forseti mun kanna hvort hægt er að ná sambandi við hæstv. forsrh. og gera ráðstafanir í samræmi við það.)