Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 23:15:10 (2211)


[23:15]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Engin hótun er marktæk nema vilji sé til þess að fylgja henni eftir. Og hvað síðasta atriðið varðar sem hv. þm. nefndi, þá er vilji til þess að fylgja þeirri hótun eftir, ef til þess þarf að koma. Það er réttlætanlegt vegna þess að við erum að opna fyrir skiptin endanlega með fjármuni upp úr þessum áramótum og því er ekkert óeðlilegt að hótun af þessu tagi sé beitt, ekki síst vegna þess að lánskjör erlendis eru nú mjög hagstæð.
    Aðeins vegna þess sem nefnt var um vextina. Sumir hafa sagt hér og reyndar annars staðar, að verst hafi verið að þessi aðgerð, þó hún hafi heppnast, hafi ekki verið gerð fyrr. Þegar umsagnir sérfræðinganna eru skoðaðar þá kemur á daginn að þeir telja allir eða nánast allir að þessi aðgerð hafi heppnast og ekki sé ástæða til að ætla annað en hún mundi standa. Þeir segja flestir að þetta hafi verið hárrétti tíminn, en tímasetning skiptir mjög miklu máli. Einstaka aðili hefur þó sagt að hugsanlega hafi ríkisstjórnin gripið til þessara aðgerða aðeins of fljótt. Enginn sérfræðingur segir að ríkisstjórnin hafi gripið til þessara aðgerða of seint.
    Vegna húsbréfanna þá vil ég vekja athygli á því, af því að hv. þm. nefndi að ekki hafi verið fullnægt eftirspurn kerfisins þar, sem rétt er, að í þeim tilboðum sem ekki voru tekin kom fram mikil vaxtalækkun. Tilboðin voru á bilinu 5,2--5,4, en það var ákveðið að taka þeim ekki, en vaxtalækkunin kom í ljós og sýndi sig þar. En það var ákveðið að halda sig við prinsippið og það mun verða gert nú við það útboð sem fer fram, að ég hygg, á þriðjudaginn kemur. Það verður ekki tekið neinum tilboð með raunávöxtun hærri en 5%.