Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 23:19:32 (2213)


[23:19]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það sem skiptir meginmáli í þessum efnum er að heildarlánsfjáreftirspurn ríkisins hefur dregist saman. Þegar þessi tilraun var gerð á sínum tíma með ekki jafnnákvæmum hætti eins og nú hefur verið gert, þá var vandamálið það að heildarlánsfjárþörf hins opinbera var meiri heldur en allur sparnaður í landinu, nýsparnaður í landinu, en nú hefur heildarlánsfjárþörf hins opinbera dregist saman um meira en helming og það skiptir miklu máli og skiptir meira máli heldur en hallarekstur á ríkissjóði á hverjum tíma varðandi vextina.
    Varðandi hitt sem hv. þm. nefndi hér fyrr og reyndar aðrir þingmenn hafa komið inn á, að það hafi verið sópað út á markaðinn miklum peningum af hálfu Seðlabankans, þá er ég ekki sammála þeirri útleggingu. Það er frekar um það að ræða að stjórntækjum bankans, sem hafði verið beitt mjög fast og ákveðið í tengslum við þensluástand í landinu, voru löguð að því ástandi sem nú er, þegar ekki er um þenslu að ræða. Menn slökuðu á þáttum sem eðlilegt er að hafa í föstu formi, þegar þensla er mikil. Það er ekkert sem bendir til þess hér, fremur en annars staðar um þessar mundir, að þessi slökun af hálfu Seðlabankans muni leiða til þess að þensla fari af stað. Og ég er reyndar þeirrar skoðunar gagnvart bönkunum að það muni sanna sig, sem ég hygg reyndar að einn af bankastjórunum hafi tekið undir, að þessir lækkandi vextir, þó þeir kunni um stundarsakir að skapa bönkunum vandamál, þá muni gerast það sama hér og í Noregi að lækkandi vextir muni verða bönkunum til framdráttar. Staða skjólstæðinganna mun styrkjast, vilji þeirra til að standa í skilum mun eflast og til lengri tíma horft munu bankarnir standa betur við lækkandi vexti heldur en við hærri vexti og meiri vaxtamun.