Fjáraukalög 1993

48. fundur
Föstudaginn 03. desember 1993, kl. 00:21:00 (2224)

           [00:21]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. vék að því hér að seðlabankastjóri hefði sagt í viðtalinu í Morgunblaðinu að hann teldi víst að bankarnir mundu lækka það raunávöxtunarstig sem rætt var um í fréttinni en það vantaði bara rökin fyrir því. Rökin sem hann flutti fyrir því að stigið væri svona hátt var að vitna í fákeppnismarkaðinn og rekstrarerfiðleika bankanna. Það komu engin rök fyrir þeirri trú hans á að þetta mundi lækka. Hæstv. forsrh. var að því leyti aðeins skýrmæltari en seðlabankastjóri að hann vék að stöðu sparisjóðsbókanna og annarra reikninga í bönkunum og breytingu á þeim um áramót sem vissum rökum fyrir því að þá gæti þetta liðkast til hjá bönkunum. En það voru engin rök hjá seðlabankastjóranum fyrir því að þetta mundi gerast. Ég tel að hæstv. forsrh. eigi ekki að hafa svona mikla trú á því að það sem hann kallar nú markaður og er samheiti fyrir Íslandsbanka, sparisjóðina, Landsbankann og Búnaðarbankann, muni endilega haga sér með þessum hætti.
    Að lokum varðandi kjaranefnd og Kjaradóm. Þar er mikill vandi uppi sem ég veit að hæstv. forsrh. gerir sér grein fyrir og það er ekki einfalt svar sem hægt er að veita í þeirri stöðu. Ég ætla ekki að fara út í það hér í andsvörum að veita það en staðan sem er komin núna upp er hins vegar þannig að það kerfi sem notað er til að ákveða laun hluta ríkisstarfsmanna, yfirleitt þeirra ríkisstarfsmanna sem best eru launaðir, hefur ákveðið að þessi hluti ríkisstarfsmanna eigi að fá verulega kauphækkun. Og þá efast ég um að það takist að sannfæra aðra ríkisstarfsmenn og launafólk á almennum launamarkaði um að það eigi ekki líka að gilda um þessa aðila og þess vegna tel ég nauðsynlegt að ríkisstjórnin fjalli um það með hvaða hætti hún bregst við þessari stöðu sem upp er komin en líti ekki á þetta sem einhverja utanaðkomandi þætti sem hún geti í raun og veru ekki tekið á vegna þess að þeir komi henni ekki við.