Viðhorf ríkisstjórnarinnar til veiða Íslendinga í Smugunni og við Svalbarða

49. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:20:43 (2230)

[15:20]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. sjútvrh. hvert sé viðhorf ríkisstjórnar Íslands til veiða Íslendinga í Smugunni og við Svalbarða.
    Ég vil byrja á að færa þeim útgerðarmönnum og sjómönnum sem hófu veiðar í Smugunni og við Svalbarða þakkir mínar. Ég lít svo á að í þeirri stöðu sem við erum bæði efnahagslega og með möguleika á veiðum á heimaslóð hljóti það að vera mjög jákvætt að Íslendingar sæki út fyrir sína landhelgi eftir fiski. Ég tel að það geti ekki neitt verið á móti því að við veiðum á alþjóðlegum hafsvæðum og veiðarnar í Smugunni hafi verið mikil búbót fyrir íslenskt þjóðarbú.
    Veiðar við Svalbarða eru vissulega stundaðar af þjóðum eins og t.d. Rússum sem með réttu neita að viðurkenna yfirráð Norðmanna yfir veiðum á því svæði. Það er nú einu sinni svo að réttarstaða Norðmanna í því máli er það tæp að ef íslenskt skip væri tekið þar að veiðum teldi ég að ríkisstjórn Íslands ætti að tryggja það að um málshöfðun fyrir Alþjóðadómstólnum yrði að ræða í framhaldi af slíkum atburði.
    Það er samkomulag um að nota ekki Svalbarða í hernaðarlegu tilliti, það er elsta samkomulagið sem gert hefur verið. Og það var meginatriði hins upprunalega sáttmála um Svalbarða. Skjóti Norðmenn á skip eru þeir um leið farnir að nota aðstöðu sína í hernaðarlegu tilliti á þessu svæði. Ég vil líka benda á það að mér vitanlega eiga Íslendingar þann möguleika opinn að stofna fyrirtæki í Rússlandi og hefja veiðar undir rússneskum fána ef Norðmenn vilja ekki una því að við stundum þar veiðar undir íslenskum fána. Og ég er sannfærður um að þar kemur að að skipti á úthafsveiði munu eiga sér stað á milli þjóða eftir hefðbundnum leiðum. En allt bendir til þess að sú veiðireynsla sem menn munu afla sér á næstu árum verði lögð til grundvallar í þeirri skiptingu.

    Því miður er ég ekki ánægður með þær yfirlýsingar sem heyrst hafa eftir hæstv. sjútvrh. um þetta mál og vil þar byrja á að vitna í Morgunblaðið frá 11. ágúst. Þar var sagt svo um togarana belgísku sem lönduðu á Austfjörðum.
    ,,Ráðherra með löndunarbann í undirbúningi.`` Og seinna kom það svo fram þegar við hófum þarna veiðar að þeir væru svo sem að falla frá því að fara í löndunarbann eða að stöðva veiðarnar með reglugerð þar sem lagaheimild væri ekki til staðar að fara í slíka hluti. Ef ráðherra hefði nú haft lagaheimild í sumar til að banna veiðar í Smugunni hefði hann þá snúið sér til þess verkefnis og bannað íslenskum veiðiskipum að stunda þar veiðar? Var það sú stefna sem hæstv. sjútvrh. taldi þjóðhagslega rétta? Ég held að það sé nauðsyn fyrir ríkisstjórnina að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli. Ég tel að þjóðin bíði eftir því að fá svar við því: Ætla menn að verja íslenska hagsmuni eða á að geyma þetta inni í einhverju heiðursmannasamkomulagi kratanna á Norðurlöndum?