Viðhorf ríkisstjórnarinnar til veiða Íslendinga í Smugunni og við Svalbarða

49. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:35:15 (2235)


[15:35]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Um afstöðu íslenskra stjórnvalda til veiða í Smugunni þarf ekki að spyrja. Frá upphafi hefur því verið lýst yfir að þær veiðar fari fram á alþjóðlegu hafsvæði og norsk stjórnvöld hafa ekki treyst sér til að hreyfa formlegum mótmælum við því.
    Að því er varðar veiðar á svæðinu í kringum Svalbarða, hinu svokallaða fiskverndarsvæði sem Norðmenn hafa lýst þar yfir, þá gegnir þar vissulega öðru máli. En það er nú ekki í anda mikillar samstöðu ef menn vilja ræða það mál með einhverjum köpuryrðum um linkind stjórnvalda. Vissulega geta Íslendingar litið í eigin barm og spurt sig hvernig það má vera að á öllu tímabilinu frá 1920 og þar til nú fyrir skömmu þá hafi íslensk stjórnvöld ekki mótað neina stefnu til þess máls. En þess má geta að það er fyrst í tíð núv. ríkisstjórnar sem viðræður eru teknar upp um það mál, það eru lögfræðilegar álitsgerðir teknar saman og kröfur settar fram um heimildir til veiða á Barentssvæðinu og þar með á þessu svæði og efasemdir látnar í ljós með formlegum hætti um réttarstöðu þessa fiskverndarsvæðis sem Norðmenn hafa tekið sér.
    Það er rétt sem kom fram í máli Hjörleifs Guttormssonar að það er að sjálfsögðu annað mál en veiðar á opnu hafi vegna þess að við erum hér að tala um svæði sem við höfum ekki viðurkennt sem það fiskverndarsvæði sem Norðmenn hafa tekið sér, við erum með fullan fyrirvara á því. Við erum þar í hópi ýmissa annarra þjóða sem hafa ekki viðurkennt það að lögum. Sem dæmi má nefna sérstaklega fyrrum Sovétríki og Rússa. En aðrar þjóðir hafa hins vegar viðurkennt það í reynd með því að una þeim reglum sem Norðmenn hafa sett.
    Það er ekki ástæða til að gagnrýna framgangsmáta okkar í þessu máli vegna þess að það hefur verið flutt í ríkisstjórn Íslands tillaga um að Ísland gerist aðili að Svalbarðasamningnum. Það er hygginna manna háttur og sjálfsögð háttvísi að leita eftir viðbrögðum Norðmanna áður en endanleg niðurstaða er

fengin eða ákvörðun tekin. Það er skynsamlegra að farið að ræða þetta mál í nefndum þingsins og leita eftir sem mestri samstöðu á Alþingi Íslendinga um málið. Hér er um að ræða mál þar sem öll rök standa til þess að Íslendingar snúi bökum saman. Og það er ekki ástæða til gagnrýni á málsmeðferðina að svo stöddu.