Ofbeldi í myndmiðlum

50. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:47:28 (2239)

[15:47]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Þann 26. apríl 1990 var eftirfarandi þál. samþykkt á Alþingi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að dregið verði verulega úr því ofbeldi sem börnum og öðrum er sýnt í sjónvarpi, kvikmyndum og á myndböndum og gerðar verði nauðsynlegar kannanir í þessu skyni.``
    Á þessum tíma var umræða um ofbeldi í myndmiðlum á byrjunarstigi, hér á landi a.m.k., en ég held að ég þurfi ekki að tíunda það nákvæmlega hversu mjög það hefur verið í umræðu núna að undanförnu, bæði hér á landi og erlendis. Það hefur borið á vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna og hryggileg dæmi bæði hér á landi og í öðrum löndum hafa dregið mjög athyglina að því hve hægt er beinlínis að rekja ofbeldi, ofbeldisaðferðir og annað slíkt til þess sjónvarps- og myndbandaefnis sem á boðstólum er.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að mjög árangursríkt átak gegn einelti sem gert var í Noregi fyrir allmörgum árum skilaði sér mjög vel en nú er svo komið að það er fallið í sama farið aftur og jafnvel hefur versnað og samkvæmt nýjum skýrslum er talið að ein helsta ástæða þess að sótt hefur í verra far aftur sé sú að ofbeldi í myndmiðlum hefur farið mjög vaxandi, verið aðgengilegra fyrir börn og unglinga og einnig að vídeóefni mjög ofbeldisfullt hefur verið á boðstólum þannig að hér er bæði um sjónvarp og myndbönd að ræða.
    Ég held að það sé að verða nokkur hugarfarsbreyting og það má rekja þá umræðu m.a. til Bandaríkjanna þar sem megnið af þessu ofbeldisefni á uppruna sinn meira og minna. Menn eru farnir að doka við og hugsa hvort ekki sé nóg komið og hvort það sé ekki þörf á aðgerðum. Við bárum gæfu til þess fyrir liðlega þremur árum síðan hér á Íslandi að samþykkja tillögu um að dregið verði verulega úr ofbeldi í myndmiðlum og því hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra á hvern hátt ályktun Alþingis hefur verið framfylgt. Ég hygg að það sé fróðlegt fyrir alla hér að vita hvað hefur verið gert og hvort það hefur borið einhvern árangur.