Ofbeldi í myndmiðlum

50. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:55:11 (2241)


[15:55]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Það er löngu tímabært að skoða það hvaða áhrif ofbeldi í myndmiðlum yfirleitt, ekki hvað síst í sjónvarpi og þær myndir sem börn geta tekið og horft á heima hjá sér, hafi. Ég geri ráð fyrir að flestir muni eftir því máli sem hér hefur oft verið í fjölmiðlum um tvo drengi á Englandi sem misþyrmdu þriggja ára dreng. Hann lést af þeim misþyrmingum og það kom í ljós að atburðarásin í kringum það mál var alveg óhugnanlega lík því sem gerðist í ákveðinni kvikmynd sem annar drengurinn hafði iðulega horft á. Ég tel því að það sé mikil nauðsyn á því að vinna skipulega að því að banna slíkar myndir sem víðast og að fyrirbyggja á einhvern hátt að börn hafi aðgang að þeim.