Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 13:49:19 (2255)

[13:49]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um prestssetur en frv. þetta er lagt fram samhliða frv. til laga um kirkjumálasjóð. Frv. til laga um prestssetur sem hér liggur fyrir til umræðu stefnir með sama hætti og frv. til laga um kirkjumálasjóð að því að auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar á sviði stjórnsýslu og fjármála. Frv. þetta gerir þannig ráð fyrir að sérstakur sjóður sem lúti sjálfstæðri stjórn fari með málefni prestssetra. Frv. varðar einungis stjórnsýslu prestssetra en ekki hinn fomrlega eignarrétt þeirra.
    Eins og fram kemur í frv. til laga um kirkjumálasjóð er það hliðsjón af viðræðum sérstakra nefnda ríkis og kirkju um framtíðarskipan kirkjueigna landsins.
    Í 1. gr. frv. er hugtakið prestssetur í skilningi frv. skilgreint. Prestssetrum er skipt í tvo flokka, prestssetursjarðir annars vegar og prestsbústaði hins vegar.
    Í 2. gr. frv. mælir fyrir um stofnun sérstaks sjóðs sem nefndist prestssetrasjóður.
    Sjóðurinn lýtur sérstakri stjórn og stendur hann straum af kostnaði við prestssetrin. Megintekjustofn sjóðsins verður framlag úr kirkjumálasjóði.
    Þá er mælt svo fyrir að kirkjuráð kýs þriggja manna stjórn prestssetrasjóðs og skiptir með þeim verkum. Kjörtímabil stjórnar er hið sama og kirkjuráðs. Þá er enn fremur mælt svo fyrir að kirkjuþing getur sett sjóðstjórn starfsreglur og gert ályktanir um hvaðeina er lýtur að stjórn og starfrækslu sjóðsins er bindur sjóðstjórn. Þetta felur í sér eflingu kirkjuþings og veitir stjórn prestssetrasjóðs visst aðhald og mótvægi.
    Í 4. gr. er mælt fyrir um heimild sjóðstjórnar til að kaupa og selja prestssetur. Áskilið er að kirkjuþing skuli heimila slíka ráðstöfun svo og dóms- og kirkjumálaráðherra. Ástæða þess að hér er sú undantekning gerð að atbeina ráðherra þurfi til máls er sú að ríki og kirkja eru í viðræðum um framtíðarfyrirkomulag þessara mála eins og áður hefur komið fram. Þykir því eðlilegt að ríkisvaldinu sé tryggður áfram viss íhlutunarréttur um ráðstöfun eigna á meðan þeim málum hefur ekki verið ráðið til lykta.
    Þá er mælt fyrir um skyldu presta til að inna af hendi leigugjald fyrir umráð og afnot sín af prestssetrum. Sjóðstjórn setur nánari reglur um leigugjald, og gerir leigusamninga við presta um prestssetur. Þá er enn fremur mælt fyrir um að ákvæði húsaleigulaga og ábúðarlaga eigi við um réttarsambands aðila eftir því sem við getur átt. Þykir tryggilegra að hafa tilvísun í nefnda lagabálka til að taka af vafa og eyða réttaróvissu sem ella kynni að skapast.
    Í 6. gr. eru taldir upp þeir liðir sem sjóðnum ber að kosta. Að því leyti sem ekki er um lögboðnar skyldugreiðslur að ræða, t.d. opinber gjöld, ákveður sjóðstjórn skiptingu fjár á viðfangsefni samkvæmt ákvæði þessu.
    Þá er mælt fyrir um tekjur prestssetrasjóðs. Er það nýmæli að gert er ráð fyrir þeim möguleika að sóknir geti lagt prestssetrasjóði til fé vegna prestsseturs. Ekki er þó gert ráð fyrir hugsanlegum fjárframlögum af þessu tagi við mat á fjárþörf sjóðsins. Þau yrðu hrein viðbót við annað fé hans.
    Þá er í frv. gert ráð fyrir yfirfærslu stjórnsýslunnar svo og réttinda og skyldna að því er varðar prestssetrin og því mörkuð skil sérstaklega.
    Í 9. gr. frv. er mælt svo fyrir að reikningshald prestssetrasjóðs skuli vera í höndum biskupsstofu. Er sú regla í samræmi við hina almennu reglu sama efnis um aðra sjóði kirkjunnar er fram kemur í lögum nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands. Þá er lagt til að kirkjuþing geti ákveðið að hafa annan hátt á með því t.d. að fela öðrum reikningshaldið.
    10. gr. frv. mælir fyrir um breytingu á lögum um Kristnisjóð. Breytingin lýtur einvörðungu að því að færa orðalag laga um Kristnisjóð til samræmis við orðalag þessa frv. Lagt er til að 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands verði fellur úr gildi. Ákvæði þetta mælir fyrir um heimild kirkjumrh. til að setja reglugerð um leigugjald fyrir prestssetursjarðir. Mælt er fyrir um það atriði í 5. gr. frv. þessa og því eðlilegt að ákvæðið sé afnumið.
    Í 11. gr. er lagt til að lagafrv. þetta öðlist gildi á sama tíma og lög um kirkjumálasjóð en að því er stefnt að það geti orðið 1. jan. nk.
    Í ákvæði til bráðabirgða er mælt fyrir um að kirkjuráði beri að kjósa þriggja manna stjórn prestssetrasjóðs svo fljótt sem auðið er. Eðli máls samkvæmt mundi sú stjórn einungis sitja til loka kjörtímabils núv. kirkjuráðs eða til hausts 1994.
    Stjórn samkvæmt þessu ákvæði öðlast að sjálfsögðu ekki umboð til athafna fyrr en við gildistöku laganna.
    Það er rétt að taka það fram að um þær breytingar sem hér getur hefur tekist mjög gott samstarf milli kirkjumrn. og þjóðkirkjunnar. Ég vænti þess að hv. nefnd taki þetta mál til skoðunar og eins skjótrar afgreiðslu og kostur er. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.