Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 14:21:50 (2258)


[14:21]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Kirkjan hefur lifað mörg tímaskeið og þurft að standa að útbreiðslu fagnaðarboðskapar sem stundum var torskilinn. Veraldarhöfðingjum innan kirkjunnar hefur löngum þótt erfitt að búa við þá yfirlýsingu að það væri jafnerfitt fyrir ríkan mann að komast inn í himnaríki og úlfalda að komast í gegnum nálarauga. Ég held þess vegna að þó að þetta nálarauga hafi verið ákveðið hlið, þá hafi ekki farið á milli mála að álit á kirkjunni í gegnum aldirnar hafi verið minnst þegar fjársýsla hennar fór á þann veg að þó að ekki væri hægt að segja að embættismenn kirkjunnar sem slíkir væru eigendur fjárins, þá fór ekki á milli mála að um gífurlega misnotkun var að ræða. Og í því frv. sem hér er lagt fram, sem ég hallast að að hefði átt að flytja hér í öfugri röð, þ.e. að frv. til laga um kirkjumálasjóð hefði átt að koma á undan, því það virðist ekki vera hægt að samþykkja frv. um prestssetrin nema hið fyrra njóti samþykkis á Alþingis Íslendinga.
    Fyrst er það skilgreining: Hvað er kirkjan? Er kirkjan prestarnir eða er kirkjan allir söfnuðir landsins sem standa að þjóðkirkjunni? Ég vil skilgreina kirkjuna sem alla söfnuði landsins og ég vil skilgreina prestana sem þátttakendur í þessum söfnuðum.
    Nú er svo komið með breytingum sem urðu á frv. til laga um kirkjuþing að það jafnræði sem var þar inni, að leikmenn væru jafnsterkir kennimönnum, var rofið. --- Það er nú mjög skaðlegt, hæstv. forseti, ef hæstv. dómsmrh. hefur ekki eirð í sínum beinum til að vera hér inni meðan verið er að ræða þetta

mál.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. dómsmrh. var hér aðeins inni, hefur gengið til hliðar í salnum og heyrir væntanlega það sem um er rætt.)
    Ég sé nú ekki hæstv. dómsmrh. og ég efa að hann sé í því herbergi sem um er rætt. Það er fundur landbrh. og dómsmrh. hér í hliðarsölum, það er rétt.
    Samkvæmt þessum frumvörpum, ef þau eru skoðuð í heild, þá er verið að taka vald frá söfnuðunum og færa það til kirkjuþings. Það er það sem verið er að gera. --- Og nú virðist staðan vera sú, að það sem héðan kemur fer inn til hæstv. dómsmrh. og þaðan inn í eyra hæstv. landbrh. og er nú spurning hvort ekki geti skolast nokkuð á þeirri leið. --- Ég tel að þessi uppsetning, að taka valdið frá söfnuðunum, eins og hér er verið að leggja til í frv. til laga um kirkjumálasjóð, og færa það til kirkjuþingsins og svo til kirkjuráðs, sé röng stefna. Ég tel að það sé sjálfstæði safnaðanna, sem ráða sínum ráðum að sjálfsögðu með sínum sóknarfresti, sem þurfi að tryggja á svæðunum. Ég er ekki viss um að svo verði um ókominn tíma að sveitirnar séu í þeirri aðstöðu að geta varið sín höfuðból, prestssetrin, ef valdið, yfirráðin yfir þeim, á að flytjast undir allt aðra aðila. Ef á að flytja það vald héðan, þá væri eðlilegt að flytja það til safnaðanna, að þeir sætu yfir þessum hlutum og gættu þeirra. Og ég mundi engum treysta betur til að fara með það vald en söfnuðunum sem verja að sjálfsögðu sín prestssetur.
    En sú hugmynd sem hér er uppi varðandi prestssetrin er á þá leið að kirkjuráð á að kjósa þriggja manna stjórn prestsseturssjóðs og varamenn þeirra og skipta með þeim verkum. Kjörtímabil stjórnar er hið sama og kirkjuráðs. Það þýðir að eftirlitið með öllum prestssetrunum er sett undir ákveðna miðstýringu héðan að sunnan. Það er ekki verið að flytja valdið frá Alþingi til safnaðanna, það er verið að flytja valdið héðan upp á biskupsstofu og það er þá sama miðstýringin sem á að drottna.
    Nú vita menn að sum prestaköll úti á landi eru rýr prestaköll varðandi sértekjur. Hins vegar er það svo að sum þessara prestakalla hafa haft verulegar tekjur í sjálfu sér og þess vegna hafa fengist menn til að sitja þau, sem e.t.v. hefðu aldrei fengist til að fara á þessa staði, og kirkjan gæti setið uppi með verulega undirmálsmenn í þessum prestaköllum ef þannig væri að máli staðið. Ég er þess vegna ekkert spenntur fyrir því að setja þetta mál inn í einhvern miðstýrðan sjóð hér syðra, þar sem einhverjir embættismenn fara að leggjast yfir það og koma í veg fyrir það að sú skipan haldist að góð prestaköll í dag, vel mönnuð, búi við það í framtíðinni að þannig verði að málum staðið að þangað fari bara undirmálsmenn.
    Ég held þess vegna að þessi mál þurfi að skoða með mun víðara sjónarhorni en hér er gert. Það fer heldur ekki að milli mála að sú skilgreining sem Alþingi hefur sett varðandi vanhæfni á ýmsum sviðum til að fjalla um eigin mál, stenst ekki í þessum lögum. Alþingi Íslendinga fékk það t.d. á sig af mikilli hörku frá forsrh. eitt sinn í þjóðhátíðarræðu á 17. júní að það væri óeðlilegt að þingmenn tækju ákvarðanir um sín laun. Nú leggur hæstv. dómsmrh. til að á kirkjuþingi eigi kirkjuþingsfulltrúar að ákveða þóknun fyrir störf sín á þessu þingi. Í hvaða takt er þetta við tímans þróun?
    Ég held að hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá sé nokkurt umhugsunarefni það sem stendur í 40. gr. stjórnarskrárinnar. Ef hæstv. dómsmrh. er alvara með það að hér sé ekki verið að taka ákvörðun um hver sé eignandi þessara eigna, er hann þá að taka upp þær leikreglur að eignir á Íslandi verði seldar af öðrum en eigandanum? Er hugmyndin þá sú að innleiða það réttarkerfi að eignir á Íslandi skuli seldar af öðrum en eigandanum? Það væri alveg ný heimspeki. Það þýðir ekkert að koma hér upp og lýsa því yfir að það eigi ekki að taka ákvarðanir um eignir með þessu, nema verið sé að taka ákvörðun um að hér eftir sé það regla á Íslandi á vissum sviðum að það séu ekki eigendur sem selji eignir sínar heldur einhverjir allt aðrir.
    Ég er sannfærður um að það er ófær skipun að kirkjan hafi ekki neitunarvald um sölu á eignum þegar verið er að selja þær langt undir eðlilegu verði. Ég vil nefna síðasta dæmið, sem var algert hneyksli, um sölu á kirkjujörð í eigu sveitarfélags. Hæstv. landbrh. sá um þá sölu. Hann seldi Garðabæ ákveðna jörð. Hann veitti stórkostlegan afslátt á söluverði landsins bara út á það hvað jörðin væri stór. Þarna var verið að veita tugi milljóna í styrki með þessari sölu. Auðvitað á kirkjan að hafa neitunarvald undir svona kringumstæðum þegar verið er að gera svona hluti. Það er allt annað mál. Þessi kirkja hafði einu sinni verið sóknarkirkja, ekki síður Hafnarfjarðar. Þeir fengu ekki fermetra af þessu landi. Það voru ákveðnir gæðingar í Garðabæ sem áttu bara að fá þetta fyrir lítið --- og hæstv. landbrh. er farinn að hlusta því hann veit nákvæmlega hvað hann skrifaði undir og hefur vafalaust fengið syndaaflausn út á þetta í leiðinni. Í það minnsta hefur hann slegið af sér, hafi hann ekki gengið frá slíkum hlutum um leið og hann seldi jörðina á því verði sem þarna var um að ræða. Þetta á auðvitað að stoppa. Það á ekki að vera eðlilegt að þannig sé staðið að verkum. En það er jafnvitlaust . . .   (Landbrh.: Það á að borga keisaranum það sem keisarans er og guði það sem guðs er.) Hæstv. landbrh. hefur ekki tapað húmor sínum yfir þessu og það er vel, enda veit hann mætavel um hvað málið fjallar. Hann kannast mætavel við þessa hluti. En það er jafnvitlaust að láta sér detta það í hug að hægt sé að fara að kaupa eignir og þá fyrir hvern? Ríkið. Kaupandinn á bara að skrifa undir skuldbindingar ef dómsmrh. samþykkir. Er þá verið að færa fjmrn. undir dómsmrn. varðandi þessa hluti? Þetta gengur ekki upp. Það verður að vera samræmd stefna í réttarstöðu allra ráðuneytanna. Ef dómsmrh. fær þetta vald, þá hlýtur menntmrh. að fá það vald að mega kaupa eignir og selja fyrir menntmrn. eins og ráðuneytinu sýnist, eða landbrh. eða iðnrh. Þá verður bara opinn sölukontór hjá öllum aðilum, fasteignasala. Eins og heimildin er útbúin núna mætti hæstv. dómsmrh. kaupa

hverja einustu jörð á Íslandi, ef hann hefði heimild til þess og kirkjuþing áhuga. Heimildin er það opin. Og hún heimilar að selja öll prestssetrin á Íslandi ef hæstv. dómsmrh. hefði áhuga á því og kirkjuþing hefði áhuga á því. Svona opnar heimildir á ekki að setja inn í lög. Svona opnar heimildir til framkvæmdarvaldsins á ekki að setja inn í lög.
    Ég held að það hljóti að vera hægt að koma eðlilegum skikk á þessa hluti án þess að menn fari úr einni vitleysunni yfir í aðra. Ég er sannfærður um að það er hægt og er rétt að ýmis framlög séu gjörsamlega óeyrnamerkt þannig að kirkjan fái að ráðstafa þeim eins og henni sýnist. En það er röng stefna að flytja fjármuni safnaðanna til kirkjuþings og til ráðstöfunar þar. Það er röng stefna.
    Ég játa það aftur á móti að hinn þátturinn í ræðu tveggja ágætra þingmanna, hv. 9. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, og hv. 1. þm. Norðurl. v., þegar kemur að helgispjöllum á Þingvöllum, þá vil ég minna á það að þessi staður var notaður undir aftökur, þar voru menn höggnir, hengdir og þeim drekkt og varla hefur nú atburðurinn verið verri sem fram fór í Þingvallabænum en þessi forna saga kennir okkur. Ég vil líka bæta því við að hvaða frelsi og mannréttindi ber að verja fremur á Íslandi en fundafrelsi á Þingvöllum, þegar litið er til þeirrar staðreyndar að menn eru þó að minnast ákveðins áfanga í frelsisbaráttu Íslendinga sem byggðist m.a. á fundafrelsinu?