Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 14:37:10 (2259)



[14:37]
     Salome Þorkelsdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég finn mig knúna til þess að koma í ræðustólinn. Í fyrsta lagi til að þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir að hafa látið svo lítið að meta það svo að það hafi ekki orðið verri spjöll á Þingvöllum 1. des. sl. heldur en voru hér á sínum tíma þegar mönnum var drekkt þar eða aðrir slíkir atburðir gerðust. Ekki skal sú sem hér stendur dæma um það en vill vekja athygli á því að hún er 2. þm. Reykn. og var beðin um að koma á fund í fundaferð sem hv. 3. þm. Suðurl. stóð fyrir um kjördæmi sitt. Ég verð að leyfa mér að segja að það hafi verið dugnaðarfrumkvæði hjá honum að standa fyrir slíku fundahaldi á þessum árstíma.
    Nú vill svo til að á Þingvöllum er ekkert samkomuhús að vetri til til að halda fundi. Og það vill svo til að staðarhaldari á Þingvöllum bauð þessum hv. þm. sem ég nefndi hér, hv. 3. þm. Suðurl., að lána honum húsnæði til þess að hann gæti haldið þar fund og get ég ekki séð mikið athugavert við það. Ef ég man rétt þá mun hv. 1. þm. Norðurl. v. hafa gert athugasemdir í þeirri trú að þessi fundur ætti að fara fram í sumarhúsi forsrh., en svo var ekki. En hér voru sögð þau orð að það hafi verið mjög sérkennilegt að forseti Alþingis, sú sem hér stendur, hafi verið á fundi á Þingvöllum 1. des. og þetta sagði hv. 9. þm. Reykv. Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði enn fremur að sú sem hér stendur hafi ,,kórónað smekkleysuna`` með því að mæta á þennan fund.
    Nú vill ég þakka þessum ágætu þingmönnum fyrir hversu smekklegt þeirra tal var í minn garð. En ég vænti þess að Þingvallabændur og bændur í Grafningshreppi hafi haft sömu ánægju af þeim fundi sem þar fór fram 1. des. eins og hv. 2. þm. Reykn. hafði.