Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 14:54:44 (2263)

[14:54]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt sem hv. 9. þm. Reykv. vék að í ræðu sinni að þau frumvörp sem hér eru til umræðu í dag um málefni kirkjunnar marka um margt þáttaskil og þau tímamót að verið er að stíga mjög veigamikið skref í átt til fjárhagslegs sjálfstæðis kirkjunnar. Hér er á hinn bóginn hvergi verið að hverfa frá þjóðkirkjuskipulaginu en kirkjan er eigi að síður að taka á sig meiri fjárhagslega ábyrgð en um leið aukið fjárhagslegt sjálfstæði. Ég tel að að því leyti sé verið að stíga hér mjög markvert skref og mjög mikilvægt fyrir kirkjuna og þýðingarmikið í samskiptum ríkis og kirkju.
    Mér þykir hins vegar miður að hv. 9. þm. Reykv. og reyndar fleiri hv. þm. sem hér hafa talað hafa notað þetta tilefni til þess að fara í strákslega umræðu um fund í Þingvallabænum sem haldinn var á dögunum og farið hefur fyrir brjóstið á nokkrum hv. þm. Forseti Alþingis hefur vakið athygi á því að í þeirri fámennu sveit eru ekki mörg hús sem hýst geta stjórnmálafundi að vetrarlagi og hverjum stendur það nú nær en kirkjunni að skjóta skjólshúsi yfir menn við slíkar aðstæður. Þetta er þó allt aukaatriði.
    Hv. 9. þm. Reykv. spurði hvaða starfsemi mætti fara fram á prestssetrum. Ég vil minna hv. þm. á að það er algengt að prestar sitji á Alþingi og þeir búa á prestssetursjörðum og ástæðulaust með öllu að gera það tortryggilegt á nokkurn hátt. Ég vil líka minna á að það eru ekki aðeins prestssetrin sem hafa verið í fáeinum tilvikum notuð sem íbúðarhús alþingismanna og til þess að hýsa samkomur sóknanna. Það hefur komið fyrir að stjórnmálamenn hafa fengið kirkjur lánaðar til þess að halda samkomur á eigin vegum. Ég veit ekki betur en formaður Alþb. hafi nokkrum sinnum efnt til samkomu í kirkjum og engum dottið í hug að gera athugasemdir þar við. Það mætti sjálfsagt setja á hneykslanlegar ræður um að þar væri verið að misnota kirkjur, ef menn vildu vera í einhverjum stráksskap í umræðum hér á hinu háa Alþingi. En ég veit ekki til þess að nokkrum manni hafi dottið það í hug.
    Að því er varðar athugasemdir sem hér hafa komið fram um 4. gr. frv. þar sem áskilið er að samþykki dóms- og kirkjumálaráðherra þurfi fyrir þeim ráðstöfunum sem þar er mælt fyrir um er það að segja: Hér er verið að gera þá breytingu að kirkjan fær aukið sjálfstæði um eigin málefni og þar á meðal um ráðstöfun þessara prestssetra. Ég minni á að sala á þessum eignum hefur ekki haft þau áhrif að fjármunirnir hafi runnið í ríkissjóð. Þessar eignir hafa ekki verið eign ríkissjóðs með þeim hætti heldur hefur andvirði þeirra farið í sjóði kirkjunnar sjálfrar. En með því að enn eru að störfum viðræðunefndir ríkis og kirkju um eignamálin þar sem fjallað er um það á hvern veg megi leiða þau mál til lykta, þá þykir eðlilegt að stjórnvöld samþykki þær ráðstafanir sem kirkjuyfirvöld vilja grípa til í þessu efni varðandi ráðstöfun eignanna og ég held að það sé í fullu samræmi við stöðu málsins. En ég minni á að athugun á eignastöðu kirkjunnar hófst fyrir alllöngu. Það var einmitt í tíð ríkisstjórnar sem hv. 9. þm. Reykv. átti sæti í sem ákveðið var að gera sérstaka athugun á kirkjueignum og hver væri hinn rétti eigandi þeirra. Niðurstöður þeirrar athugunar liggja nú fyrir og í framhaldi af því hófu viðræðunefndir ríkis og kirkju sín störf, þannig að þessi skipan mála er í fullu samræmi við stöðuna eins og hún er í dag.
    Að því er 10. gr. frv. varðar og þær athugasemdir sem þar koma fram þá er fyrst og fremst verið að hnykkja á um að gildandi reglur haldi áfram í þessu efni.
    Ég sé svo, frú forseti, ekki ástæðu til þess að gera á þessu stigi fleiri athugasemdir við það sem hér hefur komið fram, en met það að ýmsir þingmenn og þar á meðal hv. 9. þm. Reykv., hafa í grundvallaratriðum tekið undir þá stefnumörkun sem í þessum frumvörpum felst og ég vænti þess að þingið geti

fylgt henni eftir með samþykkt frumvarpanna hér á þinginu. Ég vil ítreka það að frumvörpin eru unnin í mjög góðu samstarfi við yfirstjórn kirkjunnar og innan hennar er mjög sterkur vilji til þess að koma skipulagsbreytingunum fram. Ég vænti þess að Alþingi taki vel þeim vilja og þeim óskum kirkjunnar með eins skjóti afgreiðslu þessara mála hér í þinginu og kostur er.