Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:14:17 (2269)

[15:14]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér þykir miður að hv. 2. þm. Reykn. er ekki hér í salnum, forseti Alþingis, ég vildi gjarnan eiga við hana nokkur orð. Ég vildi gjarnan að forseti hlutaðist til um ef hægt væri að fá hana hér í salinn.
    ( Forseti (KE) : Forseti skal gera ráðstafanir til að láta hv. 2. þm. Reykn. vita að hennar sé óskað í salinn.)
    Ég þakka fyrir. Ég mun þá snúa mér að öðru. Satt að segja finnst mér þetta frv. eins og ég sagði áðan þurfa verulegrar athugunar við. Í 1. gr. frv. segir, með leyfi forseta:
  ,,Prestssetur eru:
    a. Prestssetursjörð: Tiltekin jörð (lögbýli) ásamt mannvirkjum, þar með talið íbúðarhúsi sem að lögum er prestssetur.
    b. Prestsbústaður: Íbúðarhúsnæði án jarðnæðis í tilteknu sveitarfélagi eða á tiltekinni jörð eða á nafngreindum stað þar sem lögboðið er að prestssetur skuli vera.``
    Ég vek athygli þingheims á því að prestssetur eru annars vegar prestssetursjörð og hins vegar prestsbústaður. Í 4. gr. segir:
    ,,Stjórn prestssetrasjóðs er heimilt að kaupa og selja prestssetur eða réttindi sem tengjast þeim, en samningur verður ekki bindandi fyrir aðila nema kirkjuþing og dóms- og kirkjumrh. hafi heimilað þá ráðstöfun.``
    Þetta er lagatextinn. Síðan er talað um tekjur prestssetrasjóðs í 7. gr. og 4. tekjuliður prestssetrasjóðs er söluandvirði prestssetra.
    Þessi lagatexti felur það ótvírætt í sér að hér getur verið um að ræða sölu á prestssetursjörð. Sölu á prestssetursjörð sem ekki er heimil án atbeina Alþingis samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar nema þá ef kirkjuþing ætti að fara að hafa lagasetningarvald, einhver annar aðili heldur en Alþingi gæti veitt lagaheimild. Þetta held ég að sé alveg ótvírætt ef textinn er lesinn. Hins vegar þá er ósamræmi í skýringunum. Þá byrjar nú grautargerðin. Til að reyna að samræma þetta stjórnarskránni þá er sagt í fyrsta lagi í athugasemdum við lagafrv. um 4. gr.:
    ,,Ákvæði þetta mælir fyrir um heimild sjóðstjórnar til kaupa og sölu á prestssetrum. Tryggilegra þykir að gera áskilnað um að kirkjuþing skuli heimila slíka ráðstöfun svo að hún öðlist gildi. Enn fremur þykir rétt að áskilja að samþykki dóms- og kirkjumrh. þurfi til slíkra ráðstafana. Sú regla helgast m.a. af því að frv. þetta tekur ekki til eiginlegs eignarréttar yfir prestssetrum eins og fyrr sagði.``
    Þetta stangast á við texta lagagreinarinnar eins og hann hljóðar.
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. er hnykkt enn betur á og segir í umsögninni:
    ,,Vakin skal athygli á, eins og gert er í athugasemdum við lagafrumvarp þetta, að kirkjunni eru ekki afhentar prestssetursjarðir og prestsbústaðir til eignar. Þær eignir verða áfram eign ríkissjóðs.``
    Gott og vel. Ef þetta stæðist sem hér segir í umsögn fjmrn. þá er ég sæmilega sáttur við það fyrirkomulag. En ég er ekki sáttur við þennan lagatexta eins og hann hljóðar. Annað hvort er ef þetta frv. á á annað borð að verða að lögum, sem ég út af fyrir sig held að sumt í því geti verið til bóta, þá verður að umskrifa þetta frv. þannig að tekin séu af tvímæli í lagatextanum sjálfum að hér sé um að ræða húsnæði t.d. sem prestar búa í, ekki jarðirnar sem slíkar. Ellegar þá að fella þessa 4. gr. út.
    Ég held sem sagt að það verði að endurbæta þetta frv. í nefndinni og ég treysti nefndinni prýðilega til þess.
    Ég er mjög þakklátur hv. 2. þm. Reykn. fyrir að vera gengin í salinn. Ég óskaði eftir að hún kæmi hér vegna þess að ég tel að hún hafi misskilið orð mín áðan. Ég var ekki að tala við 2. þm. Reykn., ég var að tala við forseta Alþingis. Það vill svo til að þetta er sama persónan. Ég tel ekki ástæðu til að leggja hömlur á og reyndar væri það mjög óréttmætt að 2. þm. Reykn. gæti beitt sér í stjórnmálabaráttu á virkum dögum sem helgum. En mér finnst það skipta nokkru máli þó hver dagurinn er þegar hún gegnir jafnframt því æðsta virðingarstarfi sem Alþingi getur kosið til, þ.e. er forseti þingsins, einingartákn okkar og á að gæta virðingar Alþingis og kemur fram fyrir hönd okkar út á við. Ég er ekki að álasa hv. 3. þm. Suðurl. þó hann skipuleggi og ég reyndar fagna því að hann skipuleggi fundaferðir um kjördæmi sitt og fái flokkssystkini sín til að mæta þar á fundum. En ég tel að það hafi ekki verið tilviljun að hann valdi Þingvallabæinn eins og sagði í auglýsingunni til þessa fundahalds. Ég tel að það hafi ekki verið tilviljun að hann valdi sjálfan fullveldisdaginn af öllum þeim dögum sem þessi fundaherferð hefur staðið til að halda fund einmitt í Þingvallabænum. Ég tel að það hafi ekki verið tilviljun að hann óskaði eftir því að forseti Alþingis yrði frummælandi á þeim fundi og það var ekki í auglýsingum þeim sem ég sá um fundinn að 2. þm. Reykn. var kynntur sem ræðumaður, heldur forseti Alþingis. Þetta er helgistaður, Þingvellir, þetta er fullveldisdagurinn þegar fundurinn var haldinn. Ég er ekki að láta mér detta í hug að eitt eða annað hafi farið þarna ósiðlegt fram. Og ég treysti því meira að segja að hvert einasta orð sem hrotið hefur af munni ræðumanna hafi verið satt og rétt, ég treysti því. En ég tel að forseti Alþingis hafi mætt þarna sem forseti Alþingis en ekki sem 2. þm. Reykn.

    Ég á ekki von á því svo ég nefni nú einn flokksbróður hæstv. forseta, nefni Þorvald Garðar Kristjánsson, fyrrv. hv. þm. og hæstv. forseta Alþingis, ég á ekki von á að hann hefði farið til Þingvalla á fullveldisdaginn til að halda þar pólitískan fund í Þingvallabænum og nóg um það.
    Hvað varðar hlálegar fullyrðingar hér um húsakost í Þingvallasveit þá vil ég taka það fram að ég hef komið á nokkra bæi í Þingvallasveit og Grafningshreppi og þar eru stofur sem prýðilega geta tekið við stjórnmálafundum af þeirri stærð sem hér var um að ræða.