Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:24:31 (2270)

[15:24]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hér er stórt mál og mikilvægt á dagskrá. Það sem kannski vekur athygli mína er það að núna 7. des. talar hæstv. kirkjumrh. fyrir þessu frv. hér á Alþingi og hann ætlast til þess, hæstv. ráðherra, að það verði afgreitt á tíu dögum frá þinginu en samkvæmt dagskrá á þingi að ljúka fyrir jól hinn 18. des.
    Nú er það svo að það kemur fram í þessu frv. að prestarnir og prestaþing hafa fjallað um málið og gert ákveðnar athugasemdir. En ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt að Alþingi skoði þetta mál vel og að stjórnir safnaðanna víða um land, eins og hefur komið fram í umræðunni, fái málið til umsagnar og allt tekur þetta sinn tíma. Þannig, hæstv. kirkjumrh., að ég sé ekki að Alþingi geti afgreitt þetta í þeim önnum sem eru fram undan. Hitt er svo önnur saga að þetta frv. ber það með sér, sem hefur verið að gerast á síðustu árum, að framkvæmdarvaldið, að Alþingi og forustumenn kirkjunnar hafa um langt árabil verið á ákveðnum flótta. Verið í ákveðnum vandræðum með marga hluti sem snúa að kirkjunni og prestastéttinni.
    Auðvitað er það svo að manni sýnist að í þessu frv. sé verið að stíga ákveðin skref til að aðskilja ríkið og þjóðkirkjunna. Ég hef talið mikilvægt að ríkisvaldið og þjóðkirkjan eigi með sér mikið samstarf. Og ég hefði talið það göfugt verkefni af Alþingi að setjast fremur yfir það að endurskipuleggja og styrkja kirkjuna á þeim tímum sem nú ríkja í samfélaginu heldur en vera á þessum eilífa flótta.
    Ég geri mér grein fyrir því að núv. ríkisstjórn ber þunga sök gagnvart prestum hvað þeirra launakjör varðar. Það var auðvitað afskaplegt framferði ríkisstjórnarinnar að setja bráðabirðalög og eyðileggja þá viðurkenndu kjarabót sem prestarnir áttu fyrir sitt mikla starf. Síðan hefur þetta mál verið á flótta og flæmingi meðal ríkisstjórnarinnar og nú fengu prestar á dögunum örlitla leiðréttingu sinna mála. Þess vegna hygg ég að það sé bæði samdóma álit prestanna og margra þeirra sem bera hag kirkjunnar fyrir brjósti að það ríki hættuástand hvað það varðar að hinir hæfustu menn leggi ekki í þetta mikilvæga starf, ekki síst kjaranna vegna. Og svo er hitt atriðið sem ber að hafa í huga að engin stétt, engin langskólagengin stétt, býr við jafnmikinn mismun og einmitt prestarnir. Þannig að ég endurtek að ég hefði viljað taka þátt í því í þinginu að styrkja kirkjuna og efla hana og vera ekki að fálma við þá hluti sem menn hér eru að stíga.
    Ég ætla t.d. að minnast á þessa óskiljanlegu 4. gr. í frv. hæstv. kirkjumrh. Þar segir: ,,Stjórn prestssetrasjóðs er heimilt að kaupa eða selja prestssetur eða réttindi sem tengjast þeim en samningur verður ekki bindandi fyrir aðila nema`` o.s.frv. Ég hygg að þessi grein samræmist ekki öðrum lögum og ekki venjulegum stjórnsýsluháttum í landinu. Mér sýnist t.d. að þarna eigi að stíga eitt skrefið til þess að ná kjörum af þeim prestum sem kannski búa við ágæt kjör á þeim prestssetrum sem þeir sitja. Ég nefni dæmi: Gæfi þetta ekki t.d. heimildir til þess að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, sem er sóknarprestur í Heydölum, ætti það á hættu að æðarvarpið yrði selt undan jörðinni? Þarna finnst mér vera gefin heimild um það að þessari stjórn með heimild ráðherra væri heimilt að taka hlunnindi undan jörð eða ég skil þetta svo. Og jafnframt er verið að gefa því undir fótinn að það eigi að selja fullvirðisrétt burt af mörgum jörðum. Ýmsir prestar hafa haft það með að stunda búskap á lögbýlum sem þeim er heimilt eða þá að hér er verið að ýja að því að þessari stjórn með heimild ráðherra verði heimilt að taka t.d. laxveiðiréttindi undan prestssetursjörðum. Ég vil alla vega spyrja hæstv. kirkjumálaráðherra hvort ég misskilji þessa grein en mér sýnist að hún, eins og ýmislegt annað í þessu frv., sé ekki í samræmi við gildandi venjur og lög. Það er því mikilvægt að allshn. fari vel yfir þetta frv.
    Hér hefur komið til umræðu mjög oft þessi Þingvallafundur eða fundur í Þingvallabændum sem ýmsir þingmenn hafa gagnrýnt hart. Ég vil sem þingmaður Sunnlendinga taka það fram að ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að það væri glæpsamlegt að forseti Alþingis og hv. þm. Árni Johnsen kæmu saman í Þingvallabænum því að ég lít ekki bara á Þingvallabæinn að því leyti sem opinberan stað heldur hlýtur þetta að vera helgur reitur og heimili prestshjónanna sem þar búa og þau hljóta eins og við öll að ráða nokkuð sínum heimilum. En jafnframt geri ég mér grein fyrir því að þegar þau hafa opnað sitt heimili með þessum hætti fyrir sínum sóknarbörnum, sínum þingmönnum, þá hlýtur þetta jafnframt að vera okkur öllum hinum opið og ég býst við því að við munum alla vega láta á það reyna hvort svo sé. En ég ber nú það mikla virðingu fyrir stjórnmálaflokkunum og alþingismönnum að ég hef lítið við það að athuga þó þeir haldi fund 1. des. og séu á hinni heilögu jörð Þingvöllum í húsakynnum prestsins.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta frv. en mér sýnist að hæstv. kirkjumálaráðherra verði að ætla þinginu örlítið lengri tíma. Það er náttúrlega mjög alvarlegt og þyrfti að taka

það upp í stjórn þingsins hversu seint mörg mál koma fram. Það er eins og menn geymi stóru málin þar til komið er dálítið fram í jólamánuðinn. Þá er þeim dembt yfir þingið og á að afgreiða þau án umræðu og umsagnar. Og það er kannski af þeim sökum sem það hefur gerst mjög oft á síðari árum að lagasetning frá Alþingi Íslendinga hefur klúðrast og orðið að leiðrétta þar ýmislegt og endurskoða síðar.