Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:36:28 (2272)


[15:36]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. kirkjumálaráðherra að þenja sig hér úr stólnum. Hann svarar ekki því sem um er spurt. Ég spurði hæstv. ráðherra sérstaklega t.d. um 4. gr. hvað hún þýddi í þessu. frv. Hann svarar því ekki heldur tekur að þenja sig hér um að menn séu bara á móti o.s.frv. Auðvitað hygg ég að margir séu þeirrar skoðunar að hér sé verið að víkjast undan ábyrgð, hér sé verið á flótta og hér sé verið að stíga skref til þess að aðskilja ríki og þjóðkirkju. Þetta er gegnumgangandi hjá þessari ríkisstjórn að menn eigi að fara sjálfir segja þeir með sín mál. Skattálögurnar skulu teknar af öðrum en þeim. Þó þeir tali hér fjálglega um að kirkjan sjálf skuli gera hitt og þetta þá tek ég nú ekki mark á því því að mér finnst liggja í gegnum þetta frv. að þeir séu á flóttaleið því miður. En mér þætti vænna um það að hæstv. kirkjumálaráðherra væri hér málefnalegur þegar málefnalega er spurt og rætt um málin og kæmi þá að þeim atriðum sem verið er að gera athugasemdir við og spyrja út í.