Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:38:04 (2273)


[15:38]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vona að það megi túlka ræðu hv. 5. þm. Suðurl. á þann veg að hann sé á flótta undan þeirri úrtölurödd sem birtist í upphaflegri ræðu hans. Það er alveg ljóst að með þeirri grein í frv. sem hv. þm. spurði um er verið að auka áhrifavald kirkjunnar um ráðstöfun þeirra eigna sem þar er fjallað um. Það er markmið þessa frv., ekki aðeins um þau atriði heldur um önnur þau verkefni sem verið er að færa til kirkjunnar, að hún fái þar aukið sjálfstæði og aukinn ákvörðunarrétt. Það er ekki flótti frá stuðningi ríkisins við kirkjuna. Það er ekki leið á vegi til þess að aðskilja ríki og kirkju. Það er þáttur í því að styrkja innviði kirkjunnar, gera hana hæfari til að fjalla um eigin mál, gera hana um leið ábyrgari og færa henni meiri völd, auka sjálfstæði hennar.