Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:39:18 (2274)


[15:39]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er farinn að efast um það að hæstv. kirkjumálaráðherra hafi lesið þetta frv. eða kynnt sér hvernig greinarnar hljóða því að hann kemur hér hvað eftir annað upp í stólinn og treystir sér

þá ekki til þess að útskýra hvað 4. gr. þýði. Þýðir hún að hér á að stíga skref sem ganga gegn öðrum lögum, selja réttindi, veiðiréttindi eða fullvirðisrétt eða æðarvarp o.s.frv. eins og ég spurði. Hvað þýðir þessi 4. gr. frv.?
    Hins vegar er ég kinnroðalaus þegar ég ræði við þá aðila sem standa að þessari ríkisstjórn. Ég álít að hér hafi aldrei í aldir verið ríkisstjórn sem með jafnníðingslegum hætti hefur ráðist að heilli stétt eins og prestastéttinni, því miður, eins og gerðist hér fyrir 2---3 árum. Það var henni til skammar og síðan hefur hún verið á flótta í málefnum þessarar stéttar. Það er fyrst núna sem náðist þar fram ákveðin leiðrétting á kjörum prestanna en er þó smán enn þá og gefur ekki tiltefni til annars en það verði gengisfall í röðum þessarar stéttar eins og hér var sagt áðan nema það verði endurskoðað. Ég ber því ekki mikla virðingu fyrir ríkisstjórninni sem nú situr, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, í kirkjulegum málum eða gagnvart hinni mikilvægu stétt sem prestastéttin er í þessu þjóðfélagi, ekki síst á hinum síðustu og verstu tímum.