Kirkjumálasjóður

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:58:54 (2279)


[15:58]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Suðurl., sem jafnframt er fyrrv. hæstv. kirkjumrh., vakti athygli á því í ræðu sinni áðan, sem er til umhugsunar, að hér er gert ráð fyrir að festa til frambúðar í lögum þá skerðingu sem ákveðin var á tekjustofnum kirkjunnar fyrir nokkrum árum og var þá mótmælt mjög harðlega, m.a. af þáv. formanni Sjálfstfl. sem nú er dóms- og kirkjumrh. Það er satt að segja dálítið sérkennilegt að upplifa það að sami maðurinn og skammaði fyrrv. ríkisstjórn hvað grimmilegast fyrir niðurskurð á tekjustofnum kirkjunnar skuli núna vera sá sem leggur til að þeir séu skertir varanlega með sérstakri löggjöf. Það segir okkur auðvitað eins og margt annað sem borið hefur við í seinni tíð að það er eiginlega sama í hvaða málaflokki er gripið niður að þar sem Sjálfstfl. hefur lofað einhverju fyrir kosningar þar svíkur hann það eftir kosningar ef hann á kost á því. En auðvitað á hann ekki alltaf kost á því þannig að það eru kannski einhver loforð ósvikin enn af því hann hefur ekki verið þar í stjórnkerfinu að hann hafi getað komið því við að bregðast þeim fyrirheitum sem hann gaf. Það er líka nauðsynlegt að ítreka þá spurningu sem ég bar fram hér áðan varðandi annars vegar þau verkefni sem hér er gert ráð fyrir að tekin verði á sjóðinn og hins vegar tölur fjárlagafrv. Mér sýnist að það skakki þar einum 6 millj. kr. og ég óska eindregið eftir því að hæstv. dóms- og kirkjumrh. svari því hvað hér er á ferðinni.
    Varðandi einstakar greinar frv. þá ætla ég ekki að ræða þær ítarlega. En þar sem ég á sjálfur ekki sæti í allshn. og á því ekki kost á því að koma þar á framfæri tæknilegum athugasemdum við efni frv. kýs ég að gera það hér.
    Ég vil fyrst vekja athygli sérstaklega á þeirri grein frv. sem er 6. gr. tölul. 2, stafliður b. Þar er gert ráð fyrir því að kirkjuþing kjósi sérstaka þingfararkaupsnefnd sem ákveði dagpeninga, ferðakostnað og þóknun til kirkjuþingsmanna. Og þar með er í raun og veru gert ráð fyrir því að aðild ríkisins að ákvörðun um þingfararkaup kirkjuþingsmanna verði felld niður. Nú hefur þetta verið þannig, ef ég man rétt, að dóms- og kirkjumrh. hefur orðið að samþykkja greiðslur fyrir setu á kirkjuþingi eins og aðrar greiðslur sem fara til þeirra sem vinna einhver verk á vegum ríkisins á vegum hvaða ráðuneytis sem er. Hér er um algerlega nýja skipan mála að ræða og ég tel að út af fyrir sig samrýmist sú skipan því að kirkjan sé sjálfstæðari með sín mál á sem flestum sviðum. En hins vegar samrýmist þetta ekki því miðstýringarvaldi sem tekið hefur verið upp að því er varðar laun ríkisstarfsmanna. Hér áðan vorum við með frv. sem gerir ráð fyrir því að dóms- og kirkjumrh. geti í raun og veru heimilað kaup og sölu á prestssetrum samkvæmt 4. gr. frv. til laga um prestssetur og það þurfi ekki að bera það undir fjmrh. Þetta er gífurleg breyting frá því sem verið hefur varðandi eignameðferð hjá ríkinu. Annað skref er svo stigið í nákvæmlega sömu átt þegar gert er ráð fyrir því að ráðherra sé byggt út úr því kerfi sem lýtur að ákvörðun launa fyrir setu á kirkjuþingi. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegur forseti, að mér brá nokkuð í brún þegar ég sá þetta ákvæði. Mér sýnist það benda til þess að þarna eigi að gilda allt aðrar reglur um þessa starfsmenn ríkisins en um aðra starfsmenn ríkisins.

    Ég er þeirrar skoðunar eins og komið hefur fram í umræðum um þessi mál og fleiri að ég tel að kirkjan eigi að hafa sem mest sjálfstæði en þá segi ég: Aðrar stofnanir sem taka við fjármunum í gegnum ríkissjóð með einum eða öðrum hætti eiga þá að vera sjálfstæðar líka. Og það að það verði til sérstök þingfararkaupsnefnd til að ákveða þóknun handa þeim sem sitja á kirkjuþingum einmitt á þessum tímum núna þegar bullandi deilur eru uppi í þjóðfélaginu um kjör ríkisstarfsmanna, það er mjög sérkennilegt, mjög sérkennilegt. Og ég hlýta að spyrja hæstv. dóms- og kirkjumrh. að því hvort fjmrn. hafi fallist á þetta líka, þetta ákvæði. Hæstv. dóms- og kirkjumrh. gefur það til kynna að hæstv. fjmrh. hafi fallist á þetta ákvæði. Það eru tíðindi verð ég að segja fyrir þá opinberu starfsmenn sem hafa verið að fjalla um sín kjaramál núna síðustu daga að þarna verði til sérstök skipan að því er varðar tiltekinn hluta eða kannski öllu heldur brot af því starfi sem þessir starfsmenn ríkisins í raun og veru inna af hendi. Ég held að þarna sé um að ræða nýbreytni svo ekki sé meira sagt sem sé nauðsynlegt að menn taki á og vinni að og ræði með algjörlega opnum hætti hvort menn viti í raun og veru hvað menn eru að gera. Vita menn hvað þeir eru að gera þegar þeir eru að leggja þessa tillögu fram með þeim hætti sem það er orðað í þessu frv.?
    Ég vil í annan stað, virðulegur forseti, víkja að þessu ákvæði til bráðabirgða sem mér finnst frumlegt satt að segja í lagasmíði, ákaflega frumlegt. Þannig háttar til, virðulegur forseti, að þetta er frv. um kirkjumálasjóð en síðan er smellt inn í ákvæði til bráðabirgða ákvæðum um nokkra opinbera embættismenn. Afskaplega sérkennilegt verð ég að segja. Það er sex ný efnisatriði í ákvæðinu til bráðabirgða. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að kirkjumálasjóður þessi starfræki embætti söngmálastjóra. Og að hann starfræki Tónskóla þjóðkirkjunnar í öðru lagi. Og hvað á hann að gera þessi Tónskóli þjóðkirkjunnar? Jú, það sendur í þessu ákvæði til bráðabirgða líka, ákvæði til bráðabirgða um kirkjumálasjóð, hann á að stuðla að prófum sem eru lokapróf þar sem menn fá réttindi til að starfa sem organistar í kirkjunum, og hvað? Sem kennarar í tónlist. Þetta er hér inni í frv. um kirkjumálasjóð. Það stendur að vísu: Tónskólinn skal til þess tíma kenna í samræmi við námsskrá sem hlotið hefur staðfestingu menntmrn. Svo stendur hér í frv. sem er alveg ótrúlegt um skólamál. ,,Nemendur Tónskólans öðlast að öðru leyti réttindi í samræmi við þá áfanga (námsstig) sem þeir ljúka í námi og í samræmi við ákvæði í reglugerð.`` Hér er með öðrum orðum kveðið á um námsstig í tónlistarnámi alveg í smáatriðum í frv. um kirkjumálasjóð. Þetta er alveg ótrúlegt. Og þó að þetta séu miklir snillingar allir sem vinna í kringum æðstu embætti kirkjunnar og heiðri okkur sumir hér með nærveru sinni efast ég um að það eigi að láta þá skrifa lagafrv. alveg í smáatriðum og gagnrýnislaust. Ég held að það hefði verið sniðugra að flytja um þetta fleiri frv. og hafa þetta í öðrum frv. heldur en slengja þessu í frv. um kirkjumálasjóð, hvaða réttindi menn geta fengið úr Tónskóla þjóðkirkjunnar. Að þaðan geti menn bara orðið organistar og kennarar í músik ofan í kaupið.
    En það er ekki nóg með að þetta sé haft þarna bæði varðandi söngmálastjórann og Tónskóla þjóðkirkjunnar heldur er dregin inn í þetta lagafrv. önnur stofnun, sú þriðja. Hver er það? Fjölskylduþjónusta kirkjunnar, hún smellir sér hér inn í ákvæði til bráðabirgða um kirkjumálasjóð. Það stendur hér, með leyfi forseta: ,,Forstöðumaður fjölskylduþjónustu kirkjunnar skal eiga rétt til áframhaldandi og sambærilegra starfa við fjölskylduþjónustuna við gildistöku laga þessara.`` Um kirkjumálasjóð. Svo er bætt við tveimur efnisatriðum í viðbót. Það er sagt: ,,Eignir þær sem ríkið hefur lagt Tónskóla þjóðkirkjunnar til renna til skólans við gildistöku laga þessara.`` Og síðan kemur: ,,Húseignin að Bergstaðastræti 75, Reykjavík,`` stendur hér í frv. til laga um kirkjumálasjóð ,,ásamt leigulóðaréttindum verður eign kirkjumálasjóðs við gildistöku laga þessara.`` Þannig að hér er slengt inn í ákvæði til bráðabirgða einni stofnun sem er embætti söngmálastjóra, annarri stofnun sem er Tónskóli þjóðkirkjunnar og kveðið á um hvað hann á að gera, hann á að útskrifa organista og músikkennara. Í þriðja lagi er smellt hér inn embættinu fjölskylduþjónusta kirkjunnar. Í fjórða lagi er ákveðið að eignir Tónskólans renni til sjóðsins og í síðasta lagi að húseignin að Bergstaðastræti 75 ásamt leigulóðarréttindum verði eign kirkjumálasjóðs við gildistöku laga þessara.
    Virðulegi forseti. Það er stundum verið að skammast yfir einhverjum bandormum sem er dýrategund og meira er talað um á Alþingi en í öðrum stofnunum. Ég veit eiginlega ekki hvað þetta dýr ætti að heita. Þetta er kannski bandormsættar, af liðdýrategund með einhverjum hætti. (Gripið fram í.) Þetta er ekki sullur, nei hv. þm. Guðrún Helgadóttir, það er rangt. Þetta er ekkert svoleiðis. Þetta er náttúrlega alveg ótrúlegt sull aftur á móti, það er rétt hjá hv. þm., alveg ótrúlegt sull, þannig að ég vildi nú af því að ég á ekki sæti í þeirri hv. nefnd sem um málið fjallar beina því til hennar að hún leysi þetta frv. upp í ein 4--5 frumvörp, þar sem eitt fjallar um embætti söngmálastjóra, eitt um Tónskóla þjóðkirkjunnar, eitt um fjölskylduþjónustu kirkjunnar og eitt um þær eignaráðstafanir sem hér er um að ræða. Og svo loks eitt frv. um kirkjumálasjóð en ekki að hrúga þessu öllu saman með þeim hætti sem hér er gert.
    Virðulegi forseti. Ég vildi koma þessum athugasemdum á framfæri um leið og ég endurtek það sem sagði áðan við fyrsta dagskrármálið, að ég er í grundvallaratriðum hlynntur því að þessi verkefni séu flutt til kirkjunnar í auknum mæli og það sé staðið að því með eðlilegum hætti. Og ég endurtek líka það sem ég sagði hér í upphafi áðan við fyrsta dagskrármálið að ég tel að það þyrftu að fara fram ítarlegar umræður um samskipti og hugsanlegan aðskilnað ríkisins og kirkjunnar og þær umræður ættu að fara fram hér í opinni dagskrá að undangenginni skýrslu sem hæstv. kirkjumálaráðherra flytti. Alþingi ræðir aldrei um mál af þessum toga. Grundvallaratriðið ræðir Alþingi helst aldrei nokkurn tíma, aldrei, hvorki sem snerta kirkjuna eða yfirleitt neitt heldur dansa menn hér í yfirborðinu gjarnan langtímum saman. Og þegar kemur að málefnum sem snerta kirkjuna, þá ræða menn það yfirleitt mjög lítið, sem er í raun og veru mjög skrýtið miðað við allar aðstæður og þá sterku stöðu sem hún hefur hér í okkar þjóðfélagi. Og það væri þess vegna að mínu mati skynsamlegt að það færi fram heildarumræða um þessi mál um leið og þessi skref eru stigin sem hér er gerð tillaga um, þar sem í rauninni er stefnt að formlegri aðskilnaði ríkisins annars vegar og kirkjunnar hins vegar en við höfum áður kynnst í íslenskri löggjöf.