Kirkjumálasjóður

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 16:12:07 (2280)


[16:12]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað að beina nokkrum spurningum til hæstv. fjmrh. varðandi þetta frv. og ég vil spyrja að því hvort hæstv. fjmrh. er í húsinu.
    ( Forseti (KE) : Hæstv. fjmrh. er ekki í húsinu.)
    Þá, virðulegi forseti, verð ég að biðja um það að hæstv. fjmrh. sé sóttur til þessarar umræðu vegna þess að í þessu frv. eru ýmis atriði sem óhjákvæmilegt er að hæstv. fjmrh. veiti svör við til þess að skýra þá stefnumótun sem hér er greinilega á ferðinni af hálfu fjmrn. og snertir líka ýmislegt annað þannig að mér er nokkur vandi á höndum þegar búið er að breyta þingsköpum og ekki er heimilt að tala nema í 20 mínútur en nánast ógerlegt og ekki boðlegt að ræða þetta mál hér án þess að geta átt þess kost að fá hæstv. fjmrh. til umræðunnar. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvernig hægt er að leysa úr þessari þraut. Ég er reiðubúinn til að gera hlé á ræðu minni og bíða þess að hæstv. fjmrh. komi.
    ( Forseti (KE) : Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til að athuga hvort hæstv. fjmrh. getur komið til fundarins en ég vil benda á að hæstv. dómsmrh. er til staðar og flytur málið þannig að ég vil spyrja ræðumann hvort hann geti ekki beint máli sínu til hæstv. dómsmrh.)
    Nei, ég get það nú ekki vegna þess að þær spurningar sem ég er með snerta annars vegar launagreiðslur á vegum ríkisins og hins vegar eignir ríkisins sem er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. svari.
    ( Forseti (KE) : Ef hv. þm. ætlar ekki að beina máli sínu á neinn hátt til annars en hæstv. fjmrh. og ekki eru fleiri á mælendaskrá mun forseti fresta þessari umræðu um stund en vill taka það fram að það verður að ráðast af því hvort hæstv. fjmrh. getur komið til fundarins hvernig framhaldið verður en það er verið að athuga málið.)
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það og vil þá beina þeirri ósk til forseta þingsins að það verði séð til þess á þessum annatíma þingsins að a.m.k. þeir ráðherrar sem meira máli skipta varðandi mörg þau frumvörp sem hér eru til umfjöllunar, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. sérstaklega, hagi störfum sínum þannig að hægt sé að kalla þá til umræðu svo að mál geti komið til umfjöllunar. Ef hæstv. dómsmrh. tekur hér til máls, þá kannski kemur hæstv. fjmrh. áður en hann hefur lokið ræðu sinni.
    ( Forseti (KE) : Forseti mun nú fresta þessari umræðu um stund en vill taka fram að til þess að liðka fyrir umræðu er betra að þingmenn geri viðvart þannig að forseti geti gert ráðstafanir áður en svo langt er liðið á umræðuna til þess að láta hæstv. ráðherra vita að þeirra sé óskað ef þeir eru ekki viðlátnir eða hafa gert aðrar ráðstafanir. Í þessu tilviki eru ekki fleiri á mælendaskrá og verður því að fresta umræðunni um stund.)