Meðferð og eftirlit sjávarafurða

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 16:19:55 (2282)

[16:19]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þær athugasemdir sem ég vil gera við þetta mál varða fyrst og fremst Fiskistofu. Ég minni á að þegar verið var að setja Fiskistofu á laggirnar var þegar fyrirsjáanlegt að ekki væri séð við öllu því sem þyrfti og ég er þá sérstaklega að vísa hér í þá greinargerð sem fylgir eða skýringu sem fylgir 2. gr. þessa frv. en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkar skyldur eru því lagðar á Fiskistofu um þjónustu við sjávarútveginn. Þær athuganir sem stofan þarf að gera til að tryggja að sjávarafurðir uppfylli heilbrigðiskröfur helstu viðskiptaþjóða eru í senn umfangsmiklar og kostnaðarsamar. Þá hefur komið í ljós að Evrópubandalagið gerir mun meiri kröfur um opinbert eftirlit með framleiðslunni en reiknað var með þegar ný lög um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra voru samþykkt. Fleiri verkefni hafa því lent hjá Fiskistofu en ráð var fyrir gert.``
    Ég vil vekja athygli á því að þetta átti ekki að þurfa að koma mönnum svo ýkjamikið á óvart þar sem það var þegar fyrirsjáanlegt þegar Fiskistofa og skoðunarstofur voru settar á laggirnar auk þess innra eftirlits sem var samkvæmt gamla kerfinu hjá stærstu framleiðsluaðilum. Það átti ekki að þurfa að koma nokkrum manni á óvart að þetta kerfi stæðist ekki vegna þess að það lá fyrir á meðan þetta mál var til umfjöllunar í nefnd. Miklar tilfærslur urðu vegna meðferðar sjávarafurða og eftirlits með framleiðslu þeirra. Það var fyrirsjáanlegt þá þegar að það yrðu gerðar miklu meiri kröfur á hendur opinberum aðilum en látið var að liggja þegar þessi kerfisbreyting var keyrð í gegn. Ég gagnrýndi það raunar mjög að þarna væri ekki verið að horfast í augu við það sem koma skyldi. Það er alveg áreiðanlegt að okkar helstu viðskiptaaðilar í fiskviðskiptum, bæði Evrópubandalagið og Bandaríkin krefjast þess að opinberir aðilar hafi miklu meiri ábyrgð og miklu meiri skyldur í eftirliti en látið var að liggja þegar skoðanastofuæðið gekk yfir.
    Við vitum af því að síðan hefur verið gagnrýnt töluvert hvernig gangur þessara mála er. Vissulega má ætla að eitthvað af því séu byrjunarörðugleikar og vankantar verði sniðnir af en í þessu tilviki er ekki hægt að skýla sér á bak við það. Þessi varnaðarorð komu fram í umræðu í sjútvn. og að hluta til einnig í viðræðum hér á þingi, einkum þegar fjallað var um Fiskistofu og það átti ekki að koma nokkrum manni á óvart að það væri verið að fara út í eftirlitskerfi sem ekki stæðist og þess vegna er verið að gera þessar lagfæringar. Okkur getur sjálfsagt greint á um hvort það sé raunhæft að gera allar þær kröfur til viðskiptavina sem Evrópubandalagið gerir og Bandaríkjamenn að hluta en það er alla vega alveg ljóst að við verðum að standast þær kröfur ef við ætlum að vera samkeppnisfær í þessum viðskiptum. Og við verðum einfaldlega að taka það upp að gera töluvert ríka kröfu til opinberra aðila. Auk þess erum við með þetta millistig sem skoðunarstofur vissulega eru og var alltaf fyrirsjáanlegt að þær yrðu og svo að sjálfsögðu eftirlit vinnsluaðilans sjálfs þótt í einstaka tilviki sé hægt að sameina skoðunarstofu og þetta fyrsta stig eftirlitsins. Ég held að hér sé verið að byggja upp allt of þunglamalegt kerfi, allt of dýrt kerfi og í rauninni fáránlegt kerfi og þetta staðfestir enn þann grun minn. Það er vitað og hefur verið til umræðu raunar innan sjútvn. að mönnum er farið að blöskra það hversu mikil pappírsvinna og vottorðavinna og mikið óhagræði er að því þunglamalega kerfi sem er í kringum Fiskistofu og það er m.a. vegna þess að þarna koma of margir aðilar að málinu. Það hefði átt að horfast í augu við það strax í upphafi að rík kvöð er sett á opinbera aðila að standa vel að eftirliti og bera mikla ábyrgð og mikla eftirlitskyldu og þá hefðum við kannski getað sleppt þessum millilið sem skoðunarstofur eru eða haga á þessu á einhvern skynsamlegri hátt.
    Ég ætla ekki að fara í langa umræðu um þetta en mér finnst sjálfsagt að vekja athygli á þessu sérstaklega. Ég vísa hins vegar í þá umræðu varðandi 1. gr. sem varð hér í fyrra þar sem sérstaklega var varað við því að við færum ekki að veikja okkar stöðu varðandi það að okkar hráefni væri talið uppfylla upprunareglur, við færum ekki að grauta of mikið sama t.d. Rússafisk og íslenskum fisk. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þá umræðu. Hún sagði í rauninni í efnisatriðum það sem segja þurfti um þetta mál. Við munum væntanlega fá tækifæri til þess að fjalla nánar um þetta innan sjútvn. og þar mun ég hafa aðstöðu til að koma að málinu en það er dálítið hvimleitt að standa hér ár eftir ár frammi fyrir því að aðvaranir og ábendingar hafa ekki verið teknar til greina og þar af leiðandi fer meira bæði af okkar tíma og tíma alls starfsfólks þingsins, bæði þingmanna og annarra í óþarfar endurtekningar og óþarfa björgunarstörf eftir á.