Meðferð og eftirlit sjávarafurða

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 16:27:01 (2283)


[16:27]
     Ragnar Elbergsson :
    Virðulegur forseti. Þetta frv. til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit er auðvitað framhald af því sem var þegar Fiskistofa var sett á laggirnar. Ég var einn af þeim sem höfðu mikla fyrirvara um að leggja niður Ríkismat sjávarafurða og taka upp Fiskistofu og hefur margt af því sem við héldum fram sem höfðum fyrirvara um þetta komið fram.
    En varðandi þetta frv. langar mig að taka fyrir 1. gr. þar sem segir: ,,Þó er ráðherra heimilt að kveða á í reglugerð í hvaða tilvikum sé ekki krafist slíkrar aðgreiningar.``
    Það kemur til af því að það eru fortakslaus ákvæði um að halda skuli sjávarafurðum sem sérstaklega eru

fluttar inn til vinnslu eða innpökkunar hér á landi sér. Ég tel mjög varasamt að sjútvrh. gefi út almenna reglugerð varðandi þessi mál. Ég tel miklu eðlilegra að innan laganna verði ákvæði um það hvað gæti verið undanþegið í þessum samruna. Þar á ég sérstaklega við bræðslufiskinn sem gæti auðvitað fallið undir það þegar erlend loðnuskip koma hér að landi, þá er mjög eðlilegt að það verði heimilt að það sé unnið saman, en ég set alla fyrirvara um það að t.d. í saltfiski eða freðfiski geti verið um að ræða að taka Rússafisk sem nefndur var hér áðan og blanda honum sem útflutningsvöru og síðan líklega undir kjörorðinu Íslenskt já takk. Ég lýsi öllum fyrirvara þar á.
    Varðandi Fiskistofu almennt þá hefur hún auðvitað leitt til þess í sjávarútvegi að gjaldtaka í eftirlitskerfinu er alltaf að aukast. Gjaldtaka á sjávarútvegsfyrirtæki með tilkomu Fiskistofu er sem sagt orðin allt of há og ég tel að með því að leggja niður Ríkismat sjávarafurða hafi verið stigið skref aftur á bak. Ég hef fengist mikið við atvinnurekstur í sjávarútvegi og allt það sem Fiskistofa er að gera í dag varðandi eftirlitsþáttinn sinnti Ríkismat sjávarafurða að fullu. Það sem hefur komið í staðinn eru óhemjumiklar gjalddtökur. Og eins og hv. 9. þm. Reykn. sagði áðan þá ég tel að skoðunarstofurnar séu óþarfamilliliður í þessu eftirlitskerfi. Ég tel að það kerfi, sem Ríkismat sjávarafurða var búið að byggja upp, hafi fullnægt sem eftirlitsaðili. En mér þætti gaman að fá líka upplýsingar hjá ráðherra um það hvort hann gæti látið gera úttekt á hversu mikill kostnaðarauki er fólginn í Fiskistofu og skoðunarstofum fyrir sjávarútvegsfyrirtækin og það væri mjög gott að það kæmi hérna fyrir hið háa Alþingi að hæstv. sjútvrh. mundi veita okkur þær upplýsingar.
    Ég held að ég sé ekki að orðlengja meira um þetta en ég undirstrika að ég vara við að gefin verði út almenn reglugerð um undanþáguákvæði í sambandi við 1. gr. heldur verði sett inn í lögin einhver undanþáguákvæði, t.d. hvað varðar bræðslufisk.