Meðferð og eftirlit sjávarafurða

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 16:33:21 (2285)


[16:33]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni gamall kunningi frá síðasta þingi og reyndar á þetta mál sér lengri forsögu. Hér er að vísu eingöngu á ferðinni tvær afmarkaðar greinar eða efnisþættir í lögum um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra og varðar sú fyrri eins og hér hefur þegar verið nefnt undanþáguákvæði af einhverju tagi gagnvart þeirri fortakslausu skyldu sem er í gildandi lögum um að halda aðgreindu hráefni eftir því hvort uppruni þess er innlendur eða erlendur.
    Ég deili þeim efasemdum sem menn hafa haft um að það sé skynsamlegt að ganga allt of langt í þessum efnum og ég tel að það sé hyggilegast að búa þannig um hnútana að við getum í raun og veru vísað til þeirrar almennu reglu að þetta sé aðskilið og þá á ég bæði við efnislega og bókhaldslega aðskilið, það sé hægt að vísa á alveg hreint borð í þeim efnum. Það nægir alveg að vísa til þeirra erfiðleika sem ýmsir hafa lent í og Íslendingar reyndar ekki alveg undanskildir varðandi það að gera grein fyrir uppruna útflutningvöru sem nýtur þá hagstæðari viðskiptakjara svo að eingöngu sé nú rætt um þann hluta málsins sem snýr að tollunarlegri meðferð vörunnar og þeim viðskiptakjörum sem menn njóta þó að það sé í sjálfu sér ekki aðalatriði málsins heldur hitt að við förum varlega í öllu því sem getur haft áhrif á markaðsstöðu, orðstír íslenskrar framleiðslu og þar sé hreint mjöl í pokanum í orðsins fyllstu merkingu, ekki neitt aðfinnsluvert í því hvernig við tíundum uppruna okkar framleiðsluvöru. Og þegar við segjum að hún sé íslensk, þá er hún íslensk. Menn hafa miklað hér fyrir sér vandkvæði sem geta verið fólgin í því að halda aðskildum förmum t.d. þegar bræðslufiskur endrum og eins berst hér í land af erlendum skipum. Það eru í raun og veru nánast einu tilvikin sem bent hefur verið á þegar spurt hefur verið um það, hvar þetta hefur valdið erfiðleikum í framkvæmd, þá er það nefnt sem er kunnugt að endrum og sinnum landa hér norsk eða færeysk loðnuskip einhverjum slöttum og það er þá fyrst og fremst í bræðslunum sem þyrfti að vera heimild fyrir því að halda þessu aðskildu enda liggur það í eðli málsins þannig að tæknilega er það jafnframt erfiðast í slíkri framleiðslu miklu frekar en þegar verið er að framleiða fisk sem er meira handunninn eða unninn þannig aðgreindur í stykkjatölu. Þess vegna væri að mínu mati einfalt að búa þannig um hnútana að þau fyrirtæki sem byggju við þessar sérstöku aðstæður gætu sótt um undanþágur frá þessari reglu og það væri hægt að skilgreina hana og samþykkja í hverju tilviki og það væru þá væntanlega fyrst og fremst einhverjar bræðslur um norðaustanvert landið sem eru að taka á móti hráefni á þeim árstíma þegar eitthvað kemur af erlendum skipum hér að landi sem mundu leita eftir því og fá slíka undanþágu. Það væri varlegri opnun í þessu efni en almenn undanþáguheimild án þess að ég sé með því að segja að hæstv. ráðherrum núv. og tilvonandi í framtíðinni sé ekki treystandi eða verði ekki treystandi til að fara með þetta sem slíkt. Þetta er meira spurningin um það hvernig þetta á að standa samkvæmt lagabókstafnum. Ef það væri svo vísað í t.d. greinargerð eða nál. að þarna væri fyrst og fremst höfð í huga þessi tilvik með bræðslufisk og annað því um líkt þá held ég að það væri allt á sínum stað.
    Um seinna efnisatriðið varðandi Fiskistofuna þá verð ég að segja alveg eins og er að það er afar neyðarlegt fyrir hæstv. sjútvrh. að þurfa að koma hér með gjaldtökuheimildarákvæði af þessu tagi vegna þess að ýmsum mun nú þykja að nóg sé komið. Og það hefði verið heppilegra að mörgu leyti og betra ef hæstv. ráðherra hefði í staðinn fyrir að afla heimildar til gjaldtöku af þessu tagi lagt fyrir fundinn ítarlega greinargerð um það hvernig þessi breyting yfir í Fiskistofu hefði tekist og niðurlagning Ríkismatsins. Og að er ástæða til þess að gera gangskör að því að óska eftir slíkum upplýsingum hvað hefur verið að gerast þarna á sl. 1 1 / 2 árinu í kringum þetta apparat þarna því það eru ýmsar sögurnar sem maður heyrir og sumar býsna vel rökstuddar með bara hreinlega fskj. og bókhaldi fyrirtækjanna um það gjaldafargan sem þessu hefur fylgt, margfalda eftirlits- og vottorðakerfi sem í raun og veru er verið að koma á fót og auðvitað alveg morgunljóst að þarna er báknið ekki bara kyrrt heldur er beinlínis verið að auka það verulega. Og ég er ekki viss um að þetta sé að stefna í að verða mikið gæfulegri útkoma á þessari einkavæðingu heldur en bara hreinlega var með Bifreiðaskoðun Íslands hf. sem var nú fræg að endemum eins og kunnugt er og í skjóli sinnar einokunar og ríkisvernduðu viðskipta komst upp með linnulaust okur hér um árabil og gerir sjálfsagt enn, veitti verri þjónustu en sá aðili sem fyrir var og hefur fjárfest í gífurlegum mannvirkjum og velt þeim umsvifalaust út í verðlagið og yfir á kúnnann, enda býr hún við þá sérstöku aðstöðu að lögreglan færir henni viðskiptavinina nauðuga viljuga ef ekki vill betur til og klippir af druslunum þeirra númerin ef þeir ekki gera svo vel að mæta og borga sína pligt til Bifreiðaskoðunar Íslands hf. vel að merkja. En það er þetta sáluhjálparatriði að koma þessu hf. fyrir aftan sem allt snýst um að því er virðist. Fiskistofan er nú kannski ekki hf. enn þá en það er þessi hugsun og skoðunarstofurnar eru hf. eða eitthvað þaðan af fínna. Hér er í raun og veru að birtast manni það sem maður óttaðist að í staðinn fyrir að einfalda þessi mál, stytta boðleiðirnar og gera ábyrgð hinna einstöku framleiðenda á þessum gæðaþáttum meiri, þá er í raun og veru verið að setja upp þrefalt lagskipt eftirlitskerfi með tilheyrandi kostnaði í öllum samskiptunum og gjaldtöku þarna á milli.
    Hér er sem sagt Fiskistofan að fara fram á heimild í lögum eða sjútvrh. fyrir hennar hönd að hún megi taka 200 þús. kr. fyrir það að viðurkenna skoðunarstofurnar sem fara svo á stjá og fara að skoða fyrirtækin. Og ég held að það sé margt til í því sem sagt var á sínum tíma og varað var við að þarna sé verið að byggja upp alveg hreinan millilið, kláran millilið sem í raun og veru ætti að vera hægt að komast af án. Er það nú virkilega svo að menn séu betur settir með aragrúa af skoðunastofum sem Fiskistofa þarf að hafa eftirlit með og taka 200 þús. kr. fyrir að taka út ( Gripið fram í: Og stimpla.) og stimpla svo allt saman sjálf hvort sem er vegna þess að það kom á daginn þegar farið var að fara ofan í saumana á þessum málum vorið 1992, tókst nú reyndar þá að afstýra miklu slysi sem e.t.v. væri best að hafa sem fæst orð um, auðvitað getur ríkið ekki framselt hið opinbera eftirlitsvald því að viðskiptavinir okkar erlendis viðurkenna það ekki að einkaaðilar fái hinn opinbera eftirlitsstimpil. En það var engu að síður það sem var lagt til við okkur í frv. sem lá hér fyrir þinginu veturinn 1991--1992 að í raun og veru átti að einkavæða eftirlitshlutverk ríkisins. Og þegar við stjórnarandstæðingar fórum að biðja menn að staldra nú aðeins við og gá betur að sér og óskuðum eftir upplýsingum og fengum upplýsingar m.a. frá Evrópubandalaginu um þessi mál þá kom það á daginn að þarna væru menn á leið með að gera reginskyssu vegna þess að kaupendurnir erlendis viðurkenna ekki að ríkið selji frá sér í hendur einkaaðila hið opinbera eftirlitsvald. Það skal veskú vera ríkið sem er með stimpilinn ef hann á að gilda. Þessu urðu menn þá að bjarga einhvern veginn því að ekki mátti hætta við einkavæðinguna og ekki mátti hætta við að koma upp skoðunarstofnunum fínu út um allt land. Nei. Þetta var þá leyst þannig að Fiskistofa skyldi hafa eftirlit með skoðunarstofunum og vera ofan á þeim og bera ábyrgðina í reynd að lokum og þar með væri fyrir því séð að eftirlitshlutverkið væri á endanum hjá ríkinu, uppi á efsta þrepi píramídans. Og þarna er sem sagt hver silkihúfan ofan á annarri með tilheyrandi kostnaði. Þessu hafa viðskiptavinirnir, sjávarútvegurinn náttúrlega kvartað stórlega undan og þetta hefur stóraukið útgjöld og vandræði þeirra fyrir utan svo ýmsar uppákomur í framkvæmdinni sem væri hægt að segja miklar sögur af. T.d. hafa snúið sér til sjútvn. fyrirtæki sem höfðu fengið samþykkt hjá Ríkismati sjávarafurða áætlun um uppbyggingu og úrbætur í sinni verkun og vinnsluaðstöðu. Svo mætir skoðunarstofa fyrir hönd Fiskistofu og segir: Nei takk. Þið skuluð koma þessu í lag bara hérna fyrir jól eða við lokum hjá ykkur. Svona hótunarbréfum hefur rignt út yfir fyrirtækin sem sum hver höfðu í höndunum samþykkta áætlun forverans, Ríkismats sjávarafurða um að vinna kannski úrbætur í fyrirtækjunum á tilteknum tíma og margt fleira af þessu tagi er ómögulegt annað en nefna hér úr því að tækifæri gefst til þess að segja nokkur orð um þessa vitleysu. Staðreyndin er náttúrlega sú að það er búið að

velta hérna verulegum byrðum yfir á greinina á síðustu 2--3 árum og hæstv. núv. sjútvrh. hefur verið betri en enginn við það að velta nýjum gjöldum yfir á sjávarútveginn, bara tiltölulega afkastamikill. Hann kom t.d. veiðieftirlitinu öllu yfir á sjávarútveginn snemma á embættisferli sínum, hæstv. núv. sjútvrh. og það er t.d. búið að velta nánast öllum rekstri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins yfir á sjávarútveginn sem á að langstærstum hluta nú að fjármagna sig af sértekjum sem eru auðvitað ekkert annað en gjöld á sjávarútveginn. Áður hafði þessi stofnun umtalsverð framlög frá ríkinu. Það þekkja allir vitleysuna um Hafrannsóknastofnunina og hvernig átti að velta því yfir á sjávarútveginn í formi sölu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs. Nú er sem betur fer búið að snúa eitthvað ofan af því og hér er á ferðinni dálítil angi af þessu máli. Fiskistofan verður auðvitað fá að taka 200 þús. kall fyrir það að gera úttekt á skoðunarstofunum og svo verða skoðunarstofurnar náttúrlega að borga þetta. Og hvert fara þær með reikninginn? Til kúnnans auðvitað og þær leggja það ofan á þjónustureikninga sína við fyrirtækin í sjávarútveginum að þær þurfa að borga Fiskistofunni svo og svo mikið fyrir hennar náð og þannig koll af kolli. Einbjörn togar í Tvíbjörn o.s.frv.
    Ég held að það væri nær að taka þetta frv. og skipta því upp í tvennt, reyna að ná samkomulagi um meðferðina á 1. gr. og afgreiða það en geyma hitt og fara þess í stað fram á að það verði ekki hreyft við þessari vitleysu frekar fyrr en búið er að gera rækilega úttekt á því sem hefur verið að gerast hjá Fiskistofunni og í þessu eftirlitsbákni öllu. Að vísu hefur það heyrst að hæstv. forsrh. hafi hugsað sér að skera sjúvrh. og fleiri niður úr snörunni og setja sérstaka nefnd í það að skoða eftirlitsbransann eins og það er einhvers staðar orðað á þeirri gullaldaríslensku sem nú tíðkast, þennan blómlega iðnað sem er að þjóta hér upp undir verndarvæng frjálshyggjumannanna í ríkisstjórn, eftirlitsiðnaðinn sem blómstrar meira en nokkuð annað. Ég held að það sé full ástæða til og í raun og veru þyrfti að fara fram úttekt á vegum Ríkisendurskoðunar eða einhvers slíks aðila á annars vegar kostnaðarþáttum þessa máls og hins vegar stjórnsýsluþáttunum. Þarna þarf auðvitað að gera ítarlega stjórnsýsluúttekt og jafnframt vandaða kostnaðarúttekt á því sem þarna er að gerast. Það er auðvitað ekki hafandi að gamanmálum þegar svona vitleysur verða eins og t.d. með Bifreiðaskoðunina sem ég hef leyft mér að nefna hér sem víti til varnaðar og menn verða að láta af svona kreddutrú að allt sé leyfilegt bara í nafni einkavæðingar og frelsis eða hvað það nú á að heita í þessum efnum. Og sér er nú hvert frelsið. Hvert eiga menn að flýja undan svona viðskiptaháttum, þegar tekið er af þeim vinnsluleyfið ef þeir gera ekki svo vel og borga reikningana bara þegjandi og hljóðalaust og framkvæma það sem stofnuninni þóknast að skella á þá í formi kvaða um að bæta úr hlutum sem í sumum tilvikum er þannig að það virðist ætlast til þess af íslenskum sjávarútvegi að hann fái skemmri aðlögunartíma til þess að koma þessum málum í horf en jafnvel sjávarútvegur í nágrannalöndunum. Og það er fulllangt gengið, það verð ég að segja alveg eins og er. Eða telja menn svo blómlegt um að litast í sjávarútveginum í dag að það sé ástæða til þess að hann fái jafnvel ekki einu sinni að nýta sér í sumum tilvikum þá aðlögunarfresti sem t.d. Evrópubandalagið sjálft, aðalviðskiptaaðilinn, gjarnan hefur ákveðið að veita til ársins 1996 eða þar um bil?
    Ég held að það sé ástæða til að staldra aðeins við í þessum efnum og vil gera það alveg ljóst af minni hálfu að ég mun ekki standa að afgreiðslu á þessu fyrr en í fulla hnefana fyrr en búið er að gefast tækifæri til að fara rækilega ofan í saumana á því sem þarna hefur verið að gerast.
    Það er auðvitað ýmislegt fleira sem þarna hefur átt sér stað sem er vægast sagt óheppilegt, t.d. sú úlfúð sem hefur komið upp milli Fiskifélagsins og Fiskistofunnar og rifrildi og togstreita þar um verkefni og fjármuni. Það er auðvitað alveg ómögulegt að hafa þetta eins og þetta er og það gengur ekki. Á þessum málum verður að taka. Þetta er allt í skötulíki núna í áformaðri afgreiðslu fjárlagafrv. Það á bara að byggja á þeim ákvæðum að Fiskistofan skuli fela Fiskifélaginu tiltekin verkefni og skammta því tiltekna peninga fyrir og í reynd sé þar verið í formi einhvers konar verktöku að færa fjármuni yfir í Fiskifélagið þannig að það geti rekið sig. En auðvitað er þetta engin hemja. Þarna eiga að vera sæmilega hrein skil á milli hver gerir hvað og það sem greitt er af ríkissjóði á bara að færast sem fjárveitingar og rekstrarframlög til viðkomandi aðila.
    Ég er því miður afar hræddur um það, hæstv. forseti, að þessi uppbygging Fiskistofu sem að ýmsu leyti stóðu rök fyrir að því marki sem þar væri á ferðinni einhvers konar stjórnsýslustofnun sem færi með tiltekin verkefni sem færðust út úr sjútrn. og gátu átt fullan rétt á sér að gera sé að breytast í hálfgerðan óskapnað, m.a. vegna þess að þarna er hrúgað saman ólíkum verkefnum inn í þessa stofnun og afar óljóst í mörgum tilvikum hvernig verkaskipting og kostnaðarskipting á að verða í þessari eftirlitshlið málsins. Og það hafa líka átt sér stað þarna slys sem ég held að væri þá ástæða til að skoða og lagfæra. T.d. er verkaskiptingin milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins hvað varðar eftirlit með þeim matvörum sem byggja þar á jaðarsvæðinu, eldisfiski og öðru slíku og hollustueftirliti þar, alls ekki nógu vandlega skilgreind. Þar hefðu menn betur haft manndóm í sér til þess að ákveða bara af eða á í hvorum geiranum þetta skyldi vera alfarið. Það var ekki. Menn voru ekki menn til þess, heldur átti að skipta þessu einhvern veginn þarna upp og afleiðingin er sú að fyrirtækin þurfa að sækja undir fleiri aðila en ella, borga fleiri vottorð en ella og hafa varla orðið við að senda fax og taka á móti faxi og borga gíró fyrir þetta og hitt. Í sumum tilvikum hjá sumum eldisfyrirtækjunum hefur þetta komið þannig út að þau eru með algerlega tvöfaldan eftirlitskostnað í þessu efni, þurfa vottorð frá bæði landbrn. og sjútvrn. eða bæði landbúnaðargeiranum og sjávarútvegsgeiranum. Gott ef ekki frá Heilbrigðiseftirlitinu eða Hollustuverndinni líka. Þetta er sem sagt í hinu

megnasta ólagi og það er ekki það brýnasta eða gáfulegasta eða nauðsynlegasta sem þarf að gera í þessum efnum að afgreiða enn eina lagaheimildina fyrir viðbótargjaldtöku eða skatti þarna inn í þennan eftirlitspíramída. Ég leyfi mér að fullyrða það.
    Ég hef algeran fyrirvara um efni 2. gr. frv. og tel í raun og veru að það sé alveg með öllu ótímabært að afgreiða slíkt fyrr en búið er að gefast tækifæri til að fara ofan í saumana á því sem þarna hefur verið að eiga sér stað og marka einhverja stefnu og ná einhvern veginn tökum á þeirri uppbyggingu sem þarna er á ferðinni.