Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 17:09:30 (2290)


[17:09]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er kominn svona einn lítill Evrópupappír, þetta er línan frá Brussel, þ.e. hér er lagt fyrir mál sem með ósköp einföldum rökstuðningi gengur út á það að nú verðum við Íslendingar að breyta gildandi lagaákvæðum um það að íslenskir ríkisborgarar megi ekki lengur einir stunda rekstur á uppboðsmörkuðum fyrir sjávarafla. Þeir eiga eftir að verða fleiri svona pappírarnir á næstu árum ef að líkum lætur og rökstuðningurinn þessi. Það er ekkert um það að ræða, það er ekkert val, þessu þarf bara að breyta af því að það er svona. Það er búið að ákveða það annars staðar að svona eða hinsegin skuli hlutirnir vera og ekki víst að það eigi eftir að verða mjög hátt risið á öllum málflytjendum sem koma hér til þess að mæla fyrir svona tillögum á komandi árum.
    Því var haldið fram lengi framan af þegar verið var að gera samninginn um Evrópskt efnahagssvæði að hann mundi að sjálfsögðu ekkert koma sjávarútvegi við, fjallaði ekki um sjávarútvegsstefnu og skipulag sjávarútvegsmála því það væri innra mál hvers ríkis og um það yrði ekki samið, enda væri þetta bara viðskiptasamningur. Sama var sagt um landbúnaðarmál, o.s.frv. Samt kemur það á daginn að það er nú ekki svo eða á ekki að vera svo, að við getum í raun og veru skipulagt þessi mál og haldið þeim hjá okkur eins og okkur sýnist í hverju tilviki. Þetta frv. er m.a. til marks um það.
    Síðan er að því að víkja, eins og margnefnt er, að einn einasti fyrirvari hélst inni af hálfu Íslendinga í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og það var fyrirvarinn varðandi fjárfestingar erlendra aðila í veiðum og frumvinnslu á sjávarafla. Allir aðrir fyrirvarar láku út úr höndunum á samningamönnum Íslands á lokasprettinum, þó menn í vörn sinni vísi í eitthvert haldlítið öryggisákvæði í 112.--114. gr. samningsins.
    Þess vegna er það nokkurt umhugsunarefni að þetta mál, sem óneitanlega er í miklum tengslum við þennan eina beina fyrirvara, skuli samt sem áður koma hér fyrir, flutt án nokkurs rökstuðnings um það að þrátt fyrir fyrirvarann þá beri okkur skylda til að breyta þessu ákvæði. Nú er þetta þannig að það er skýrt orðað í gildandi lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og fyrirvarinn í samningnum vísar í það ákvæði, að erlendir aðilar geti ekki stundað hér veiðar og frumvinnslu sjávarafla, geti ekki verið eigendur í rekstri sem hefur slíkt með höndum. Þess vegna vakna auðvitað ýmsar spurningar þegar hér er svo lagt fyrir að eftir sem áður geti útlendingar átt uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir. Hvað eru slíkir markaðir? Jú, þeir eru gjarnan millistig á milli þessara tveggja sviða sem nefnd eru í fyrirvaranum, þ.e. afli getur gengið kaupum og sölum á markaði á leið sinni frá veiðunum og yfir í frumvinnslu sjávarafurða. Og þá fer maður að spyrja sig að því, var það hyggilegt að láta þetta eftir, ef það hefur verið gert? Maður spyr sig, voru engar tilraunir gerðar m.a. til að hafa þessa varnarlínu hreinni og hafa hana utar, að sjá þá til þess að viðskipti, innbyrðis viðskipti, á milli þessara stiga, veiða og frumvinnslu sjávarafurða, væru klárlega undanþegin? Svo virðist ekki hafa verið. --- Hæstv. forseti. Það er afar leiðinlegt að hafa ráðherrana sem maður er að tala við ekki einu sinni í sjónmáli og vita ekki hvort þeir heyra eða ekki. Ég tók að vísu eftir því að hæstv. ráðherra svaraði ekki einu orði þeim athugasemdum, gagnrýni og spurningum sem hann fékk á sig í fyrra dagskrármálinu sem hann hafði mælt fyrir. Hann kaus að þegja um það þunnu hljóði. Ég veit ekki hvort það ber að taka þá þögn ráðherrans sem samþykki við allri þeirri gagnrýni sem fram kom á Fiskistofu. ( Sjútvrh.: Nei.) --- Hristir nú ráðherra hausinn og kallar meira að segja fram í ,,nei``. Þetta er mikilsverð þátttaka hjá hæstv. sjútvrh. í umræðunni. Þetta merkilega nei sem vonandi hefur náð alla leið í gegnum hljóðnemann inn í þingtíðindi. Þögn ráðherra bar sem sagt ekki að túlka þannig að hann væri samþykkur allri þeirri gagnrýni sem Fiskistofan fékk á sig, sjálfsagt einhverri af henni samt.
    Mig langar til að vita það, hæstv. forseti, frá hæstv. sjútvrh., í fyrsta lagi hver hefur krafist þess að þetta frv. sé flutt? Er þetta frv. flutt að ósk utanrrn.? Er það túlkun utanrrn. á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði að við verðum að fella niður þetta íslenska eignarhald á uppboðsmörkuðum? Ef svo er þá spyr ég í öðru lagi: Er sjútvrn. sammála því að það sé ekkert undanfæri að beita þeirri túlkun gagnvart samningnum, með vísan til fyrirvarans, að við getum haldið íslensku forræði og íslenskri eignaraðild á uppboðsmörkuðunum, t.d. í ljósi þess að þeir geta verið hreint millistig í viðskiptum milli veiða og frumvinnslu? Er þetta rökstutt af hálfu þeirra ráðuneyta sem hafa þessa skoðun, hvort sem þau eru eitt eða fleiri? Einhver hlýtur að hafa þessa skoðun úr því að þetta mál er flutt, því annars hefðu væntanlega óbreytt lög mátt gilda eða er þetta e.t.v. einhver prívat og pólitísk skoðun t.d. hæstv. utanrrh. í þeim anda að brjóta niður sölukerfið sem Íslendingar hafa byggt upp um áratuga skeið eins og Sölusamlag íslenskra fiskframleiðenda og t.d. markaðskerfið í Bandaríkjunum? Það er alveg nauðsynlegt að það liggi fyrir hvort það eru einhverjar efnislegar forsendur fyrir frumvarpsflutningi af þessu tagi eða hvort það er einhver einkapólitík Alþfl. eða eitthvað annað sem er undirrótin að flutningi mála af þessum toga. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því að bröltið í utanrrh. er búið að valda þjóðinni stórkostlegu tjóni á útflutningsmörkuðum okkar. Það viðurkennir hver einasti maður. Það er uppáskrifað af kaupendunum niðri á Spáni, það er viðurkennt af öllum í Noregi og hér uppi á Íslandi, þeim sem einhverja dómgreind hafa í þessum málum, að við erum búin að baka okkur stórkostlegt óhagræði með því að fara að undirbjóða hverjir aðra og slíkri vitleysu sem hefur auðvitað haldið innreið sína allt í nafni þessa blessaða frelsis. Ég vil fá að vita hvort það séu þannig forsendur sem liggja að baki þessum tillöguflutningi. Halda menn að himinn og jörð mundu farast þó við létum þessi lagaákvæði gilda, standa óbreytt? Það kæmi þá í ljós hvort hér banka upp á einhverjir útlendingar og heimta að fá að kaupa sig inn í fiskmarkaði. Ég held að það væri ekki stór skaði skeður. Mín spá er að vísu sú að það mundi ekki gerast nokkur skapaður hlutur, sennilega ekki árum saman eða áratugum og það væri fróðlegt að á það væri látið reyna.
    Ég tel þetta vera afar slæman fyrirboða um það að menn verði ansi mjúkir í hnjáliðunum gagnvart túlkun þessara hluta, að svo miklu leyti sem eitthvert hald er í slíku. Er það t.d. góð byrjun á framkvæmd þessa fyrirvara gegn fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi, að menn skuli þurfa að hleypa þeim hér inn í þessa starfsemi, sem er alveg á bólakafi inni í skipulagningu þessara mála og er í raun og veru milliliður sem verðleggur hráefnið í viðskiptum innbyrðis milli þessara tveggja meginsviða sjávarútvegsins, veiðanna og frumvinnslunnar, sem hvort tveggja á að vera utan fjárfestingarfæris útlendinga? Ég hef ekki heyrt mikil rök fyrir því að ekki væri stætt á annarri túlkun.
    Ég vona að hæstv. sjútvrh. geti gert okkur einhverja frekari grein fyrir málinu. Mér finnst alveg nauðsynlegt að það liggi skýrar fyrir, úr því að þessi krói er kominn eina ferðina enn á dagskrá, þessi Brussel-pappír, og ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni í von um að hæstv. sjútvrh. brjóti odd af oflæti sínu, sem hann ekki gerði áðan, og láti svo lítið að taka þátt í umræðunni og veita einhverjar upplýsingar um þetta. Er þetta sérstakt keppikefli hæstv. sjútvrh. eða er þetta flutt að beiðni utanrrh. og þá með hvaða rökstuðningi?