Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 17:28:23 (2295)


[17:28]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Ég held að það borgi sig ekkert fyrir sjútvrh. að fara í neina útúrsnúninga gagnvart eðlilegum og efnislegum spurningum um þetta mál. Hér er það ósköp einfaldlega á ferðinni að menn benda á þá staðreynd sem blasir við, að verði þetta frv. að lögum geta útlendingar eignast uppboðsmarkaðina hér og komast þar með inn á milli varðandi ráðstöfun á ferska hráefninu, þ.e. þessi tvö meginsvið sem eru samkvæmt fjárfestingarfyrirvaranum undanskilin, veiðarnar og frumvinnslan. Uppboðsmarkaðurinn getur verið millistig milli þessara rekstrarþátta í sjávarútveginum og er það gjarnan. Það þarf auðvitað ekkert að fara út í langar rökræður um það að sá aðili sem kemst þarna inn á milli og í þá aðstöðu að geta stjórnað viðskiptum með hráefnið á milli þessara stiga, hann kemst í ákveðna áhrifaaðstöðu. Ég tel að það sé afar aumingjaleg túlkun á þessum ákvæðum að fallast á að svona hluti af þessari starfrækslu í sjávarútveginum geti ekki fallið undir fjárfestingarfyrirvarann. Það er ekki við orðalag hans að sakast í þeim efnum, það er fínt eins og það er. Það er eingöngu spurningin um það hvar ytri mörkin ættu þá að liggja. Niðurstaðan varð sú og er í gildandi lögum, að þetta skuli taka til veiða og frumvinnslu, m.a. vegna þess að menn vildu kannski ekki loka á þátttöku útlendinga í einhverri endanlegri úrvinnslu aflans sem er þá kannski farin að tengjast meira markaðsendanum heldur en upprunaendanum. Þetta snýst um túlkun á því hvort þessi hluti starfrækslu í sjávarútvegi geti fallið þarna undir eða ekki.
    Það komu engin svör við því hér hjá hæstv. ráðherra hvers vegna þessi túlkun væri uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það þýðir ekkert að vísa í það að fyrri ríkisstjórn beri á því ábyrgð að 1989 hófust könnunarviðræður um EES. Það er ekki merkilegt svar, hæstv. sjútvrh., við spurningu sem er borin upp á árinu 1993 og snýr að því viðfangsefni sem hæstv. ráðherra er að leggja fyrir þingið. Ég held að hann ætti að reyna að komast nær sér í samtímanum en það að vera að velta vöngum yfir löngu liðnum hlutum af því tagi sem koma efni málsins ekki við. Hvaða ráðherra krefst þess að þetta sé flutt og túlkað svona?