Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 17:31:43 (2297)


[17:31]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. er nú fáum líkur þegar hann legst í sína útúrsnúninga, hæstv. forseti. Þetta var afar ómerkilegt svar svo ekki sé meira sagt að ætla að snúa út úr mínum orðum með þessum hætti að ég hefði þarna verið í raun og veru að veita eitthvert svar við þeirri spurningu sem hér hefur verið borin upp. Hvers vegna viðskipti á uppboðsmarkaði með ferskar sjávarafurðir, sem getur verið millistig á milli veiða og vinnslu, mætti ekki flokkast sem slíkt, þó svo ákvæði gildandi laga um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri sem snýr að sjávarútveginum sé orðað eins og raun ber vitni og ég man ekki betur en full samstaða hafi orðið um á Alþingi. Skyldi nú ekki Sjálfstfl. hafa greitt því atkvæði líka vorið 1991, e.t.v. hæstv. núv. sjútvrh.? Það er hægt að fletta því upp. Þar er því ekki um eitthvert einstaklingsbundið verk fyrrv. ríkisstjórnar sem hafi verið sérstaklega mótað vegna viðræðna sem stóðu yfir um samninga um Evrópskt efnahagssvæði, það er einfaldlega rangt. Það voru sett ný heildarlög með takmörkunum á fjárfestingum erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi. Og mig rekur ekki minni til annars en um þau lög hafi orðið ágæt samstaða. Þar er þetta orðað eins og raun ber vitni um veiðar og frumvinnslu sjávarafurða og í það er svo aftur vísað í fyrirvaranum ef ég kann þetta rétt. Það er alveg óskylt því að þetta var orðað eins og raun bar vitni. Og e.t.v. er ástæða að spyrja hæstv. sjútvrh.: Er hann ósammála þeim ákvæðum? Var hann að fría sig ábyrgð frá þeim með útúrsnúningum sínum hér áðan og voru þetta tilburðir til að koma ábyrgðinni yfir á herðar fyrrv. ríkisstjórnar af því að hæstv. núv. sjútvrh. sé þessu efnislega ósammála? Það væri fróðlegt að hæstv. ráðherra svaraði frekar slíkum grundvallaratriðum í þessu máli en hlaupa hér í ræðustól og snúa út úr.